Ólöf Ýr Lárusdóttir sem rekur iðnfyrirtæki í Fjallabyggð, sagði í ræðu á Austurvelli í dag, að leiðtogar þjóðarinnar væru að ala á fordómum í garð útgerðarmanna. Þeir ætluðu sér að laga mistök sem gerð voru þegar kvótakerfinu var komið á með skattlagningu og það bitni á þeim sem síst skyldi.
Ólöf tók fram að hún væri ópólitísk en hefði lagt það á sig að eigin frumkvæði að kynna sér sjávarútvegsfrumvörpin og umsagnir um þau. Hún skoraði á fólk að gera það í gegnum heimasíðu Alþingis.
Hún sagði að það ríkti mikill lýðræðishalli á Íslandi varðandi möguleika fólks, sem ætti allt sitt undir sjávarútveginum, á að koma sjónarmiðum sínum opinberlega á framfæri
„Þessi halli birtist í formi fordóma og persónulegra árása, þar sem núverandi leiðtogar okkar slá því miður tóninn og fjölmiðlar gefa þeim margir hverjir lítið eftir. Útgerðarmenn sem keyptu kvóta eða héldu áfram að reka sín fyrirtæki virðast í þeirra augun einhverskonar ígildi Hells Angels og aðrir hagsmunaaðilar sem voga sér að efast um heilbrigði þessa fumvarpa eiga örugglega líka mótorhjól. Einhvern veginn eru þeir sem seldu kvótann sinn svo bara stikkfrí.
Almenningur á landsbyggðinni getur ekki tekið strætó niður á Austurvöll til að mótmæla því að grundvellinum sé kippt undan lífsafkomu þeirra. Það kostar augun úr að kaupa flugfar eða keyra bíl hingað suður, oft yfir illfærar heiðar í vondu vetrarveðri. Og við skreppum ekkert heim í mat eða heim að sofa milli þess sem við mótmælum óbilgjörnum stjórnvöldum hérna á Austurvelli og komum svo bara aftur á morgun og höldum áfram þegar krakkarnir eru farnir í skólann.
Það koma engir fjölmiðlar út á land með beinar útsendingar í fréttatímum, ef fólkið þar dregur fram búsáhöldin sín til að mótmæla í miðbænum sínum.
En ef þetta sama fólk vogar sér að taka þátt í auglýsingum til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þá er það nítt niður og sagt taka þátt í sorglegum, ósvífnum og ósönnum auglýsingum. Og þetta eru orð sem sumir alþingismenn og ráðherrar þessa lands hafa viðhaft. Það er talað niður til okkar og við sökuð um að vera viljalausar strengjabrúður og óttaslegnar undirlægjur. Samt erum við að segja nákvæmlega það sama og óháðu sérfræðingarnir sem þið, stjórnvöld sjálf, völduð og réðuð í vinnu við að skoða þessu frumvörp! Sömu sérfræðingar og komumst að því að þessi frumvörp halda heilt á litið hvorki vatni né vindi,“ sagði Ólöf.
Ólöf sagði að heimili og fjölskyldur sem byggðu afkomu sína á sjósókn og fiskvinnslu hefðu upplifað talsvert á undan höfuðborgarbúum að eignir þeirra urðu verðlausar og að missa atvinnu sína í stórum stíl í kjölfar hruns. Það hefði gerst þegar þorskstofninn hrundi. „Allt í einu urðum við sem þjóð að horfast í augu við að auðlindir sjávar þoldu ekki takmarkalausan aðgang. Á þeim tíma var engin 110% leið, skuldaniðurfellingar, afskriftir eða skuldaskjól til að bjarga heimilum þessa fólks undan hamrinum. Fólk í sjávarbyggðum bar hitann og þungann af þeim óhjákvæmilegu breytingum sem þurfti vegna takmörkunar á veiðum ásamt sjálfbærri uppbyggingu fiskistofnana. En öll þjóðin hefur notið góðs af því erfiði. Sem betur fer.
Þegar aflinn minnkaði um þriðjung, í þorksígildum talið, var annað hvort að lepja dauðann úr skel eða reyna að búa til sem mest verðmæti úr minni afla til að vega þetta upp. Og hið ótrúlega tókst. Útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkuðu um aðeins 4% á sama tímabili og fyrrnefndur afli minnkaði um þriðjung. Þetta kostaði mikla hagræðingu sem skilaði 160% framleiðniaukningu. Úr þessum jarðvegi hefur vaxið öflugur sjávarklasi þar sem fjölmargar ólíkar atvinnugreinar eiga ríkan þátt í að hafa skapað gríðarleg útflutningsverðmæti úr margfalt minni afla, þar með talið sjómenn og fiskvinnslufólk.
Ólöf fjallaðu um hvernig breytingar hefðu orðið á kvótakerfinu í gegnum árin. „Sumir reyndar létu sig hverfa úr greininni með fullar hendur fjár í gegnum götótt regluverk og hafa orðið táknmynd sægreifa. Það óréttlæti verður ekki bætt með því að refsa þeim sem keyptu af þeim heimildirnar dýrum dómum og héldu áfram að reka veiðar og vinnslur. Slíkt mun bara bitna á þeim sem síst skyldi. Og það verður ekki heldur bætt með enn götóttara fiskveiðikerfi.
Ekkert í þessum nýju frumvörpum kemur í veg fyrir að þeir sem hafa selt allan sinn kvóta og stungið í eigin vasa komi nú ekki aftur inn í greininina og leiki sama leikinn í samkeppni við þá sem hafa tekið á sig skellinn af aflabresti og skuldsett kvótakaup í gegnum tíðina.
Vandamálin sem við öll stöndum nú frammi fyrir verða ekki leyst með því að senda sjávarbyggðirnar aftur til fortíðar, bara af því stjórnmálamenn þurfa að skrá sig á spjöld sögunnar og ná sem mestum peningum út úr greinninni á sem stystum tíma til að svo geti orðið fyrir næsta kjörtímabil,“ sagði Ólöf.