„Ég vildi að ég gæti þakkað háttvirtum þingmanni svarið sem ég fékk reyndar ekki og virðist það nú vera skipulögð hernaðaráætlun stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi að hunsa mig í andsvörum einhverra hluta vegna,“ sagði Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Þessi ummæli lét Björn Valur falla í ræðustól Alþingis í dag í kjölfar þess að hann tók tvisvar í röð til máls í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld en Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kaus að veita honum ekki andsvör í millitíðinni. Þá hafa aðrir þingmenn einnig látið það ógert að svara Birni Val.
Eins og mbl.is hefur greint frá fór Björn Valur í ræðustól Alþingis síðastliðna nótt í umræðum um sama mál og gerði þar að því skóna að einn þingmaður stjórnarandstöðunnar væri undir áhrifum áfengis í þinginu. Staðfesti hann í samtölum við þingmenn að hann ætti þar við Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.
Jón vísaði þeim ásökunum alfarið á bug enda hefði hann ekki bragðað áfengi. Fór hann ennfremur fram á afsökunarbeiðni af hálfu Björn Vals en því var hafnað af hans hálfu. Við upphaf þingfundar í morgun bað Björn Valur síðan Jón afsökunar á ummælum sínum og dró þau til baka en forsætisnefnd Alþingis hafði þá fundað um málið fyrr um morguninn.
Frétt mbl.is: Fundað um ummæli Björns Vals
Frétt mbl.is: Björn Valur baðst afsökunar
Frétt mbl.is: Þingmenn slegnir yfir ummælum Björns
Frétt mbl.is: Sagði alþingismann vera drukkinn