„Þetta er eitt það ómerkilegasta sem maður hefur orðið vitni að í þinginu. Enda voru viðbrögð þingmanna mjög hastarleg við þessu í gær,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um ummæli Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í nótt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld.
Þar hafði Björn á orði að sér virtist einn þeirra þingmanna sem haft hefðu sig hvað mest í frammi í umræðunni vera undir áhrifum áfengis. Eins og mbl.is greindi frá í morgun upplýsti Jón í ræðustól Alþingis skömmu síðar að þegar gengið hefði verið á Björn hefði hann viðurkennt að hann hefði átt við sig.
Jón upplýsti ennfremur að ásakanir Björns væru úr lausu lofti gripnar enda hefði hann ekki bragðað áfengi. Krafðist hann þess að forsætisnefnd tæki málið fyrir. Samkvæmt upplýsingum mbl.is mun forsætisnefnd Alþingis hittast áður en þingfundur hefst í dag klukkan hálfellefu til þess að fara yfir málið.
„Þingmenn voru slegnir yfir þessu í gærkveldi að umræðan væri komin á svo lágt plan sem raun ber vitni og það voru þingmenn sem sögðust bara ekki kæra sig um að sitja vinnufundi með þessum manni á næstunni,“ segir Jón aðspurður frekar um viðbrögð í þinginu við ummælum Björns.
Jón segir að ummælin hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Björn hafi bara birst í ræðustól og skellt þessum ummælum fram. „Ég hafði verið á fundi með flokkssystkinum mínum uppi í Mosfellsbæ frá klukkan átta til um ellefu í gærkvöldi og var kominn í þingræðu niður í þingi klukkan ellefu.“ Hann segir að skorað hafi verið á Björn að biðjast afsökunar á ummælunum en hann hafi hafnað því.
„Ég held að þetta sé fyrst og fremst til marks um það hvað málefnaþurrðin er orðin mikil og stressið og hvað þau eru að verða undir í þessari umræðu,“ segir Jón spurður að því hvað hann telji liggja að baki ummælum Björns. „Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og auðvitað veltir maður því fyrir sér hvenær eigi að beita vítum í þinginu ef það er ekki við svona aðstæður.“