Átti milljónir í útgerðarfélagi

Frá Þórshöfn á Langanesi
Frá Þórshöfn á Langanesi mbl.is/Líney

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, átti í árslok 2004 hlutafé að nafnvirði 1.710.625 króna í Hraðfrystistöð Þórshafnar, eða sem svarar 0,35% af hlutafé í félaginu, sem var afskráð í Kauphöllinni 2005.

Bróðir hans, Ragnar Már, átti bréf í félaginu fyrir 1.450.554 kr., alls 0,3% hlutafjár, og faðir þeirra, Sigfús Jóhannsson, bréf fyrir 1.133.320 kr., eða 0,23% hlutafjár. Saman áttu feðgarnir því bréf fyrir 4,29 milljónir kr. að nafnvirði hinn 31. desember 2004 og var sameiginlegur hlutur þeirra 0,88%.

Markaðsverðið 15,8 milljónir

Fram kemur á vef Kauphallarinnar að gengi bréfanna var 3,68 hinn 23. febrúar 2005 og var markaðsverð bréfa feðganna því um 15,8 milljónir skömmu áður en Steingrímur greindi frá því að hann hefði selt bréfin í apríl sama ár.

Jafngildir það 26,247 milljónum króna í dag, samkvæmt framreikningi Seðlabanka Íslands, og er hlutur Steingríms þar af 10,45 milljónir.

Má geta þess að félagið skilaði 121 milljón króna í hagnað árið 2004.

Athygli vekur að á þeim tíma sem Steingrímur og náin skyldmenni áttu hlut í félaginu var hann eindreginn andstæðingur auðlindagjalds.

Þessi afstaða kom skýrt fram í bók Steingríms, Róið á ný mið: Sóknarfæri íslensks sjávarútvegs, sem kom út árið 1996. Á blaðsíðu 74 er að finna undirkaflann Sértæk skattlagning. Segir þar meðal annars: „Hin grundvallarspurningin er hvort sanngjarnt sé að leggja sértækan skatt á sjávarútveginn. Rökin eru að það sé eðlilegt að útgerðarfyrirtækin greiði fyrir aðgang sinn að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar,“ skrifaði Steingrímur og skal svo gripið niður á blaðsíðu 75 í bókinni:

„Óréttlætanleg aðgerð“

„Auðlindaskattur á sjávarútveginn einan yrði sértæk skattlagning og því óæskileg og í raun óréttlætanleg aðgerð út frá öllum viðurkenndum skattapólitískum viðmiðunum ... Rétt er að minna á í þessu sambandi að íslenskur sjávarútvegur keppir án nokkurra ríkisstyrkja eða niðurgreiðslna við þrælstyrktan atvinnuveg í nágrannalöndunum. Er ekki frekar ástæða til þess að hrósa sjávarútveginum fyrir að standast þessa erfiðu samkeppni, sem hann hefur verið og er í, gagnvart t.d. fiskvinnslu Evrópusambandsríkjanna, heldur en skattleggja hann sérstaklega. Þó mörg sjávarútvegsfyrirtæki séu stór á okkar mælikvarða eru þau agnarsmá úti í hinum stóra heimi,“ skrifar Steingrímur sem lýkur umræddum undirkafla með þessum orðum:

„Hugmyndir sem heyrst hafa um að hægt sé að taka marga milljarða eða jafnvel milljarða tuga, svokallaðan fiskveiðiarð, út úr sjávarútveginum, eru algerlega óraunhæfar.“

Minntist ekki á gjöldin

Tíu árum síðar, árið 2006, gaf Steingrímur J. út bókina Við öll: íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum. Steingrímur fjallar þar mikið um umhverfismál og er að finna undirkaflann Vistvænn útvegur það sem koma skal. Er þar fjallað um íslenska útgerð út frá sjónarmiði umhverfisverndar og lætur Steingrímur ógert að ræða um veiðigjöldin.

Verður ekki betur séð við hraða yfirferð yfir Við öll að þar sé hvergi minnst á slíka skattlagningu.

Hann víkur hins vegar að bókinni Róið á ný mið í formálanum með þessum orðum: „Sjálfur er ég býsna stoltur yfir því hve vel þau meginsjónarmið sem ég setti fram með bókinni hafa staðist tímans tönn.“

Þurftu lesendur Við öll því að geta í eyðurnar þegar afstaða formannsins til veiðigjalda var annars vegar.

Veiðigjöldin voru Steingrími hins vegar ofarlega í huga þegar hann tók til máls fundi um veiðigjald á Akureyri árið 1997, árið eftir að Róið á ný mið kom út. Sagði Steingrímur þá m.a.:

„Loks er það atriði sem kannski hefði átt að byrja á, þ.e. að ég tel margar miklu betri leiðir til að leysa þau vandamál sem stuðningsmenn veiðileyfagjalds telja sig ætla að leysa með veiðileyfagjaldi. Því þá að fara út í þessi ósköp. Það er hægt að skattleggja hagnað fyrirtækja með almennum aðferðum,“ sagði Steingrímur m.a., að því er fram kemur í frásögn sjávarútvegsblaðsins Ægiaf fundinum á sínum tíma.

Fjölskyldan keypti hluti

Fjölskylda Steingríms J. Sigfússonar var í áraraðir tengd Hraðfrystistöð Þórshafnar. Faðir hans, Sigfús Jóhannsson, átti lengi lítinn hlut í fyrirtækinu, að sögn Ragnars Más Sigfússonar, bróður Steingríms. Þá átti Jóhannes Sigfússon bróðir þeirra einnig hlut í félaginu en hann sat jafnframt í stjórn þess.

Sjálfur keypti Ragnar Már fyrst hlut í félaginu upp úr 1970 og minnir hann að Steingrímur hafi keypt sinn hlut í kringum 1990. Fram kom í tilkynningu frá Steingrími í apríl 2005 að hann hefði þá selt hlut sinn í Hraðfrystistöðinni og lauk þar með aðkomu hans að félaginu.

Ragnar Már segir þá feðga aldrei hafa haft mikinn atkvæðisrétt í félaginu í gegnum hlutabréfaeign sína. Fjárfestingin hafi verið óveruleg.

„Maður keypti í félaginu til að hafa eitthvað um málin að segja. Auðvitað græddi maður aldrei neitt á þessu. Við áttum aldrei neitt sem skipti máli þannig að við réðum einhverju um stefnu eða eitthvað slíkt. Jóhannes bróður okkar átti um hríð mun meira en við,“ segir Ragnar Már og rifjar upp að þeir bræður hafi allir verið um hríð til sjós á Þórshöfn og Steingrímur á gamla Fontinum, togara Hraðfrystistöðvarinnar. Ekki náðist í Steingrím.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka