Breskir innistæðueigendur í forgang

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, flutti ræðu í gærkvöldi um fyrirhugaðar umbætur á fjármálakerfi landsins sem bresk stjórnvöld ætla að koma á. Meðal þess sem til stendur að gera er að innistæður í breskum bönkum verði á meðal forgangskrafna í bú þeirra verði þeir gjaldþrota en sú stefnumótun er rakin til tillagna aðalhagfræðings Englandsbanka, John Vickers.

Greint er frá þessari stefnumörkun í sérstakri hvítbók (e. white paper) sem Osbourne kynnti í ræðu sinni en þar segir meðal annars að þetta þýði að innistæðueigendur verði látnir ganga fyrir hluthöfum í bönkunum og lánardrottnum þeirra þegar bú þeirra verði gert upp fari þeir í þrot samkvæmt fréttavef Bloomberg fréttaveitunnar. Yfirlýst markmið er að tryggja stöðu innistæðueigenda og um leið koma í veg fyrir að gjaldþrot banka lendi á skattgreiðendum í framtíðinni.

Þá segir í hvítbókinni að þetta fyrirkomulag ætti að stuðla að því að lánardrottnar banka gerðu meiri kröfur um ábyrga hegðun þeirra en bankamenn hafa á hinn bóginn varað mjög við því að forgangur innistæðueigenda gæti aukið lántökukostnað fyrirtækja og einstaklinga ef hann leiðir til þess að þeir sem fjárfesta í bönkum krefjist hærri arðs af fjárfestingum sínum.

Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp um umbætur í breska fjármálakerfinu síðar á þessu ári þar sem meðal annars verði kveðið á um forgang innistæðueigenda en eins og mbl.is hefur áður fjallað um fela þau áform í sér að farin verði sambærileg leið og gert var með neyðarlögunum sem sett voru hér á landi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Frétt mbl.is: Bretar að fara íslensku leiðina?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert