Lagðar verða á 12.700-13.800 milljónir króna í veiðigjöld á næsta fiskveiðiári samkvæmt samkomulagi þingflokkanna um þinglok. Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, telur þessa gjaldtöku munu stórskaða útgerðina.
„Þetta jafngildir yfir 100% skattlagningu. Ef litið er til gagna Hagstofu um afkomu útgerðar árin 2000-2010 og svo reiknað hvaða áhrif það hefði haft árið 2010 að leggja á um 13 milljarða króna veiðigjald er niðurstaðan sú að gjaldið hefði verið um 35% af framlegð útgerðarinnar,“ segir Sigurgeir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, og heldur áfram:
„Sé það hlutfall yfirfært á afkomu hvers árs þýðir slík gjaldtaka, miðað við skattaumgjörðina sem þá var við lýði, að gjöldin jafngilda yfir 100% tekjuskatti samanlagt tímabilið. Þetta er því fullkomin eignaupptaka og þjóðnýting hjá ríkinu á útgerðinni. Við stefnum í niðurbrot útgerðarinnar. Útgerðarmenn munu borga með hverju kílói sem þeir veiða. Það þýðir að útgerðin verður ekki rekin til langframa í núverandi mynd.“