Vinnslustöðin segir upp 41 starfsmanni

Vinnslustöðin Vestmannaeyjum
Vinnslustöðin Vestmannaeyjum mbl.is

Vinnslustöðin hf. segir upp 41 starfsmanni til sjós og lands og setur Gandí VE á söluskrá.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum (VSV) samþykkti í gær að segja upp allri áhöfn Gandí VE-171 eða alls 30 manns. Gandí verður lagt að lokinni makrílvertíð í ár og skipið auglýst til sölu. Eins verður ellefu manns í landvinnslu VSV í Eyjum sagt upp.

Samningum sagt upp í sparnaðarskyni

Jafnframt hefur stjórnin ákveðið að segja upp gildandi samningum VSV um viðskipti og þjónustu af ýmsu tagi með endurskoðun til sparnaðar í huga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Með þessu móti bregst VSV við samanlögðum áhrifum af yfir helmings skerðingu aflaheimilda í makríl fyrir Gandí VE á yfirstandandi fiskveiðiári. Skerðingu aflaheimilda VSV um sem svarar til 700 þorskígildistonna á næsta fiskveiðiári. Stórhækkuðu veiðileyfagjaldi samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi, að því er segir í tilkynningu.

Borgar sig ekki lengur að gera Gandí út

Stjórn VSV fól jafnframt framkvæmdastjóra félagsins að vinna til hausts að heildarendurskoðun á rekstrinum með frekari hagræðingaraðgerðir í huga í ljósi stöðunnar sem upp er komin í íslenskum sjávarútvegi.

Gandí VE er uppsjávar- og bolfisksskip sem VSV hefur gert út frá því vorið 2010, nýjasta skipið í flota félagsins. Gandí hefur einkum verið gerður út til veiða á kolmunna, makríl, síld, loðnu, grálúðu og karfa. Áætlað var að skipið færi til veiða á grálúðu og gulllaxi í haust.

Nú blasir annars vegar við að veiðiheimildir Gandí í makríl hafa verið skertar um meira en helming og hins vegar að stórhækkuð veiðigjöld leiða til þess að ekki borgar sig lengur að gera skipið út á gullax eða grálúðu. Útgerð Gandí er þar með sjálfhætt, segir í tilkynningu.

Þungbær ákvörðun að segja upp 13% starfsmanna

„Landvinnsla VSV verður af 700 þorskígildistonnum á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2012 í samræmi við ákvæði laga frá árinu 2011. Minna hráefni kallar á færra starfsfólk til að vinna úr því.

Ákvarðanir um að segja upp 13% fastráðins starfsfólks og um að draga saman í rekstri eru þungbærar fyrir Vinnslustöðina en auðvitað fyrst og fremst fyrir starfsfólkið sem í hlut á, sumt með langan starfsaldur að  baki. Engum ætti samt að koma á óvart að til slíkra tíðinda drægi, allra síst stjórnvöldum landsins og alþingismönnum sem samþykktu nú síðast stórhækkun veiðigjalda þvert á viðvaranir úr öllum áttum, þar á meðal úr röðum eigin sérfræðinga og ráðgjafa.

Undanfarin ár hefur okkur  í Vinnslustöðinni verið tíðrætt um þá samfélagslegu ábyrgð félagsins sem stjórn, stjórnendur og hluthafar eru vel meðvitaðir um. Ljóst er nú að ofurskattlagning í formi stóraukinna veiðigjalda gerir félagið ófært að óbreyttu um að standa undir þessari ábyrgð sinni. Vinnslustöðin verður að leita allra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði sem óhjákvæmilega bitnar á starfsfólki, seljendum þjónustu í Eyjum og á samfélaginu yfirleitt.

Formælendur stórhækkaðra veiðigjalda og skerðingar veiðiheimilda á skerðingu ofan svara rökstuddum viðvörunum um afleiðingar þessa með því að tala um hræðsluáróður gegn breytingum sem gjarnan er talað um að séu í nafni réttlætis og sanngirni.

Óskandi væri nú að hægt væri að afgreiða málið einfaldlega sem „hræðsluáróður“ en svo er ekki, því miður.

Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hafa undanfarna daga farið rækilega yfir afleiðingar skerðinga veiðiheimilda og nýrra laga um veiðigjöld fyrir rekstur fyrirtækisins. Myndin sem við blasir er jafnvel enn dekkri og ískyggilegri en áður hafði verið talið. Vinnslustöðin getur ekki borið þá bagga sem stjórnvöld og Alþingi binda fyrirtækinu,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Vinnslustöðinni sem Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri hennar skrifar undir.

Vinnslustöðin segir upp fólki
Vinnslustöðin segir upp fólki mbl.is
Gandí VE-171 frystiskip Vinnslustöðvar Vestmannaeyja
Gandí VE-171 frystiskip Vinnslustöðvar Vestmannaeyja mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert