Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greiðir hluthöfum sínum 850 milljónir króna í arð í ár. Þetta var samþykkt á fundi félagsins í gær. Vinnslustöðin tilkynnti um að 41 starfsmanni yrði í hagræðingarskyni sagt upp í gær. Jafnframt að togarinn Gandí yrði seldur. Greint er frá þessu á vef Eyjafrétta.
„Þessi arður er um það bil 13% af eigin fé Vinnslustöðvarinnar sem er um það bil það sama og ávöxtunarkrafa Bankasýslu ríkisins af bönkunum," segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í samtali við Eyjafréttir.
„Ef við horfum á það hvað var áætlað á síðasta ári, þá er þetta um það bil fimm prósent af markaðsvirði þess. Ef ríkisskuldabréf eru keypt í dag, held ég að ávöxtunarkrafan sé nálægt sjö prósentunum." Til samanburðar má geta þess að arðgreiðslur ársins á undan voru 500 milljónir króna og hækkunin á milli ára nemur því 75 prósentum, samkvæmt frétt Eyjafrétta.
„Ef við ætlum að sitja og horfa aðgerðalaus á mun fyrirtækinu blæða út og samfélaginu einnig. Eignir einstaklinga og hluthafa verða að engu. Á það getum við ekki horft án þess að bregðast við ...Við ætlum að kanna réttarstöðu okkar gagnvart ríkinu. Ef við bregðumst ekki við með öllum tiltækum ráðum mun fyrirtækinu og samfélaginu hér í Eyjum blæða út,“ segir Sigurgeir í samtali við Morgunblaðið í dag um áhrif nýrra veiðigjalda á reksturinn.
Sigurgeir segir nýju veiðigjöldin valda því að rekstur togarans Gandís VE 171 gangi ekki upp.
„Við erum með skip upp á einn og hálfan milljarð og ef við gerum út á gulllax og grálúðu með lítilli eða neikvæðri framlegð og höfum ekki framlegð upp í vexti og afskriftir þá gengur dæmið ekki upp,“ segir Sigurgeir sem telur nýju veiðigjöldin ógna atvinnulífi í bæjarfélaginu.