Hælisleitendunum sleppt

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurgeir

Búið er að yfirheyra tvo menn sem smygluðu sér inn í flugvél Icelandair í nótt. Mennirnir, sem eru hælisleitendur frá Alsír, hafa játað að hafa komist inn á flugvallarsvæðið og inn í vélina. Verið er að rannsaka hvort þeir hafi komist inn á svæðið með því að klifra yfir girðingu.

„Það er búið að taka af þeim skýrslu og þeim átti að vera sleppt í kjölfarið,“ segir Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, saksóknarfulltrúi lögreglunnar á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Hann segir að túlkur hafi verið kallaður til við yfirheyrsluna og þá var verjandi viðstaddur. Mennirnir dvelja á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ en þeir eru í hælismeðferð hér á landi.

Þegar mennirnir voru handteknir sögðust þeir vera  fæddir árið 1995, og því aðeins 17 ára gamlir. Lögreglan hafði því samband við barnaverndaryfirvöld í Reykjanesbæ og þá kom í ljós að mennirnir eru báðir eldri en 18 ára. „Þá fékkst það staðfest að þetta eru drengir sem hafa mikið verið í fjölmiðlum sem undirgengust aldursgreiningu og fleira,“ segir Vilhjálmur og bætir að talið sé óyggjandi að mennirnir séu eldri en 18 ára.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru fleiri mál til skoðunar sem tengjast mönnunum.

Aðspurður segir Vilhjálmur allt útlit fyrir að mennirnir verði ákærðir fyrir athæfið. „Það er of snemmt að segja hverjar verða málalyktir en það lítur allt út fyrir að þeir verði ákærðir fyrir þetta,“ segir hann.

Lögreglan á Suðurnesjum lítur málið alvarlegum augum. „Aðalatriðið er að upplýsa hvernig þeir komust inn,“ segir Vilhjálmur. Rannsókn málsins er á frumstigi en grunur leikur á um að mennirnir hafi klifrað yfir girðingu og komist þannig inn á svæðið.

Aðspurður segir Vilhjálmur að lögreglan eigi eftir að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi flugvallarins, en það er Isavia sem hefur yfirumsjón með almennri öryggisgæslu á vellinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert