Hælisleitendurnir vel skipulagðir

Mennirnir fundust um borð í vél Icelandair.
Mennirnir fundust um borð í vél Icelandair. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna Isavia á þeim tíma er viðkomandi atvik átti sér stað kemur ekkert athugavert í ljós við störf þeirra. Hælisleitendurnir hafa greinilega verið vel skipulagðir.“ Þetta segir í tilkynningu frá Isavia um atvikið sem kom upp á Keflavíkurflugvelli um helgina þegar tveir hælisleitendur fundust í flugvél Icelandair.

Þar segir einnig að Isavia líti málið mjög alvarlegum augum en bendir á að að öryggiskerfið hafi virkað þar sem áhöfn Icelandair hafi fylgt forskrifuðum verklagsreglum í hvívetna og fundið mennina áður en vélin fór í loftið.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og liggur niðurstaða rannsóknar ekki endanlega fyrir. Isavia hefur veitt lögreglunni aðgengi að öllum gögnum sem kunna að varpa ljósi á hvernig mennirnir komust inn á svæðið og í flugvélina. Isavia hafi tekið  þá ákvörðun að veita ekki upplýsingar um málið fyrr en það lá fyrir með hvaða hætti mennirnir komust inn á svæðið.

„Ljóst er að mennirnir fóru ekki í gegnum öryggishlið inn á flugvallarsvæðið né í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fóru þeir yfir girðingu inn á svæðið og þaðan inn á flughlaðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öryggisdeild Isavia, sem fer með öryggis- og flugverndarmál á Keflavíkurflugvelli, starfar eftir mjög ströngu verklagi sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands. Við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna Isavia á þeim tíma er viðkomandi atvik átti sér stað kemur ekkert athugavert í ljós við störf þeirra. Hælisleitendurnir hafa greinilega verið vel skipulagðir.“

Þá segir að í ljósi alvarleika málsins muni Isavia yfirfara öryggiseftirlit með starfsemi á svæðinu, þrátt fyrir að öryggiskerfið hafi virkað í þessu tilviki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert