Búið er að grafa rás í landið á Hrafnabjörgum í Laugardal við Ísafjarðardjúp þar sem sinueldar hafa logað síðan á föstudag, en rásin á að koma í veg fyrir að eldurinn geti breiðst frekar út.
Heimildarmaður sem mbl.is ræddi við telur að eldar muni loga í jarðvegi á svæðinu í allt að viku í viðbót, en hann segir ólíklegt að það takist að ráða niðurlögum hans fyrr en hann slokknar af sjálfu sér. Til þess þurfi að dæla á svæðið hundruðum tonna af vatni á mínútu.
Á staðnum eru núna um 20 slökkviliðsmenn frá slökkviliðum Hólmavíkur, Súðavíkur, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur. Vaktaskipti verða á staðnum í kvöld og svo aftur í fyrramálið, en nú er unnið á staðnum allan sólarhringinn. Í nótt verða menn frá slökkviliðum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar á staðnum, en hin liðin hvíla sig til morguns. Það munu því verða um 12 manns að störfum í nótt.
Rásin sem grafin var liggur frá Laugardalsá og upp á veginn inn í Laugardal, en enn er eitthvað af svæði innan rásar sem getur brunnið.
Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að þegar búið verður að bleyta vel í þessu landi öllu verði eldurinn látinn laus og honum leyft að komast að bökkum rásarinnar sem grafin var. Vindur sé það sterkur á svæðinu að ekki verði annað hægt. Hann segir veðurspár hagstæðar um helgina og í nótt.
Kostnaður við málið hleypur á milljónum króna og segir Ómar að frá því á föstudag sé slökkvistarf þegar búið að kosta um fimm milljónir króna og enn sé ekki fyrirséð með kostnaðinn, enda fjöldi tækja og manns á staðnum í vinnu.
Bóndinn á Látrum við Ísafjarðardjúp er mættur á svæðið með 12 tonna haugsugu og verður þar í kvöld að bleyta í jarðvegi. Ætlunin var að flytja 20 tonna haugsugu frá Flúðum í Hrunamannahreppi vestur í Djúp, en bilun kom upp svo það brást, en verður skoðað á morgun ef viðgerðir takast. Sú haugsuga hefur verið nýtt við slökkvistarf sinuelda á Suðurlandi við góða raun.
Allt í kringum Laugardal hefur rignt í dag, en þar hefur einungis komið smáúði. Þó er ekki talið að úr þessu muni rigning hafa mikil áhrif á eldana og var því lýst af einum heimildarmanni sem svo að „það væri eins og að kasta vatni á gæs“.