Telur samning þurfa að liggja fyrir

Margrét Tryggvadóttir, alþingismaður til vinstri.
Margrét Tryggvadóttir, alþingismaður til vinstri. mbl.is/Ómar

„Eins fylgjandi og ég er því að spyrja þjóðina og láta hana ráða sem mestu um hag sinn og bera ábyrgð á ákvörðunum sínum finnst mér þessi spurning ekki tímabær fyrr en samningur liggur fyrir,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á heimasíðu sinni í dag um það hvenær rétt sé að halda þjóðaratkvæði um inngöngu í Evrópusambandið.

Margrét segist sjálf ekki treysta sér til þess að svara því fyrirfram hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið áður en samningur um inngöngu liggur fyrir. Þótt hún viti heilmikið um sambandið séu ýmis atriði sem eftir sé að sjá hvernig verði leyst. Þá segist hún kunna því illa að vera stillt upp við vegg.

„Þetta er stór ákvörðun og ég tel mig ekki hafa nægar upplýsingar til að taka ákvörðun fyrr en samningur liggur fyrir. Ég myndi hins vegar vel treysta mér til að svara því hvort halda skyldi viðræðum áfram, geyma þær þar til mál skýrast eða draga umsóknina til baka,“ segir hún ennfremur.

Þá gagnrýnir hún þá afstöðu Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, að kjósa eigi sem fyrst um það hvort ganga eigi í Evrópusambandið eða ekki og segist ekki fá skynsamlegan botn í þá afstöðu hans.

„Þeir sem eru í samningaviðræðum af heilum hug hljóta að hafa það að markmiði sínu að fá sem bestan samning. Það getur tekið tíma. Og þegar annar aðilinn er undir tímapressu, t.d. ef klára þyrfti samninginn fyrir áramót, veikist samningsstaða hans, sérstaklega ef hinum liggur ekkert á,“ segir Margrét.

Hún spyr að lokum hver samningstaða Íslands yrði ef þjóðin svaraði því játandi að ganga í Evrópusambandið áður en samningur lægi fyrir og væri þar með að lýsa því yfir að hún vildi ganga í sambandið hvað sem það kostaði.

Grein Margrétar Tryggvadóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert