„Við erum að tala um skrímsli en skrímslapabbi var hér í gær,“ sagði Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, um veiðigjaldafraumvarpið og Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra á aðalfundi LÍÚ í morgun.
Að lokinni framsögu fjögurra ræðumanna hófust pallborðsumræður þar sem einn fundargesta spurði ræðumenn hvernig annað eins skrímsli og veiðigjaldafrumvarpið hefði getað litið dagsins ljós.
Örvar Guðni sagði stjórnvöld hafa þurft á andstæðingi að halda til að dreifa athyglinni frá eigin mistökum. Þannig hafi skrímslið orðið til.
„Ég hef enga hugmynd um hvernig svona skrímsli verður til. Ég hef aldrei unnið í stjórnsýslu ... Ég veit ekkert hvernig þeim dettur svona vitleysa í hug... En ég held að ástæðan fyrir því að þetta var búið til svona hafi verið sú að þeir sem eru við stjórnvölinn í þessu landi vita það að þeir eru með allt niður um sig. Þá þurftu þeir einhvern til að berja á ... og það erum við,“ sagði Örvar.
Gamanvísa um Steingrím
Kynnir á aðalfundinum fór með limru um Steingrím og uppskar hlátrasköll.
Á útgerðarlýðinn Steingrímur starði
og stöðugt í pontuna barði og barði:
Það liggur á,
ég verð að fá
hverja einustu krónu af ykkar arði.
Leiðrétting klukkan 16.02 26.10.2012.
Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var því ranglega haldið fram að útgerðarmenn í pallborðsumræðum litlu svo á að kynningarherferð samtakanna vegna veiðigjaldafrumvarpsins hafa brugðist. Hið rétt er að útgerðarmenn töldu að haga þyrfti kynningarmálum betur. Almenningur þekkti ekki nógu mikið til sjávarútvegs og hefði jafnvel ranghugmyndir um greinina.
Þá var Heiðar Hrafn Eiríksson, löggiltur endurskoðandi hjá Þorbirni hf. í Grindavík, ranglega hafður fyrir ummælum sem hér eru gerð að umtalsefni. Er beðist velvirðingar á mistökunum.