„Ég mun bjóða helstu hagsmunaaðilum upp á kynningu á frumvarpinu þannig að þeir sjái það áður en það kemur fram í þinginu... Strax í samtölum okkar forystumanna stjórnarflokkanna í haust var haft í sigti að málið næði vonandi til nefndar fyrir jól.“
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra í Morgunblaðinu í dag um stöðu kvótafrumvarpsins svonefnda.
Steingrímur segir þannig ekki stefnt að afgreiðslu frumvarpsins fyrir jól, en þing kemur aftur saman eftir jólahlé hinn 14. janúar nk.
Spurður út í áherslur frumvarpsins segir Steingrímur stefnt að því að mynda virkan markað með aflaheimildir í gegnum kvótaþing sem ætlað „sé að auka sveigjanleika í kerfinu og opni það svolítið“.