Ástand þorskstofnsins er gott, að því er fram kemur í niðurstöðum stofnmælingar botnfiska, svokallaðs vorralls. Útvegsmenn vonast til að aflamark í þorski verði aukið.
Stofnvísitala þorsks mældist há og eru vísitölur þessa árs og þess síðasta þær hæstu í aldarfjórðung. Niðurstöðurnar eru mjög í samræmi við fyrra stofnmat Hafrannsóknastofnunarinnar. „Fiskurinn er að stækka og þorskurinn kominn í meðalþyngd,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró. Stofnvísitala ýsu er svipuð og verið hefur í vorralli frá 2010 og því mun lægri en var í nokkur ár þar á undan.
Þorskkvótinn var aukinn um 19 þúsund tonn við upphaf núverandi fiskveiðitímabils og er 196 þúsund tonn, að ráði vísindamanna. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, að niðurstöður vorrallsins staðfesti styrk þorskstofnsins. Vonast hann til að kvótinn verði aukinn í samræmi við áætlanir Hafrannsóknastofnunarinnar frá því í júní í fyrra.