Unnið er að tillögum um breytingar á lögum um álagningu sérstaks veiðigjalds á útveginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að breytingarnar verði að gera á sumarþingi vegna þess að þær álagningarreglur sem koma eiga til framkvæmda í haust séu óframkvæmanlegar.
Veiðigjaldsnefnd sem skipuð var til að ákvarða veiðigjald, samkvæmt gildandi lögum, hefur ekki fengið nauðsynleg gögn. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Hagstofan og ríkisskattstjóri hafa ekki þau gögn sem talin eru nauðsynleg við ákvörðun gjaldanna og telja sig að auki ekki hafa heimild til að nýta í þessum tilgangi þau gögn sem til eru.