Veiðigjaldið rætt í ríkisstjórn

mbl.is/Helgi Bjarnason

Breytingar á lögum um veiðigjald voru ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Frumvarpið verður væntanlega lagt fram á Alþingi í vikunni, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku.

 „Við erum að horfa á að það þurfi að koma bráðabirgðaákvæði sem við þurfum að koma með inn í sumarþingið vegna þess að lögin geta sem sagt ekki tekið gildi og munu aldrei taka gildi. Það snýst þá um að finna einhverja réttlátari leið til að leggja á þetta sérstaka gjald samkvæmt stjórnarsáttmálanum og við erum að reyna að finna leiðir til þess,“ sagði Sigurður Ingi í síðustu viku.

Hann sagði að þær álagningarreglur, sem koma eiga til framkvæmda í haust samkvæmt gildandi lögum, séu óframkvæmanlegar. Veiðigjaldsnefnd sem skipuð var til að ákvarða veiðigjald, samkvæmt gildandi lögum, hafi ekki fengið nauðsynleg gögn. Hagstofan og ríkisskattstjóri hafi ekki þau gögn sem talin séu nauðsynleg við ákvörðun gjaldanna og telji  sig að auki ekki hafa heimild til að nýta í þessum tilgangi þau gögn sem til eru.

Nýja kerfið á að óbreyttu að taka gildi í upphafi nýs fiskveiðiárs, 1. september næstkomandi, en þá rennur bráðabirgðaákvæði um krónutöluálagningu veiðigjalda skeið sitt á enda.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert