„[Það er] leitt að ráðherra skuli telja sig þurfa að kasta fram fullyrðingum um óframkvæmanleika þegar vel er hægt að leysa málin með vilja og að því virðist í þeim tilgangi að dreifa athyglinni frá kjarna málsins,“ segja aðstandendur undirskriftasöfnunar um óbreytt veiðigjald.
Þeir Agnar Kristján þorsteinsson og Ísak Jónsson gera athugasemdir við orð Sigurðs Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þar hafi ráðherra sagt að ef veiðigjaldinu yrði ekki breytt þá yrði ekkert veiðigjald. Mætti skilja sem svo að það væri vegna þess að lögskipuð veiðigjaldanefnd gæti ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu.
„Fyrir það fyrsta þá langar okkur að gera þá athugasemd að stjórnvöld hafa talað allt frá upphafi að þau ætli að lækka veiðigjöldin án þess að víkja að öðrum þáttum. Aðalatriði málsins eru þær fyrirætlanir stjórnvalda um að lækka veiðigjaldið sem útgerðarmenn greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinar og það á sama tíma og ríkistjórnin boðar að vænta megi niðurskurðar og annarra slíkra aðgera sem munu bitna á almannaþjónustu og velferðarkerfinu.“
„Í annan stað langar okkur að gera athugasemdir við það að borið sé því frekar óskýrt við að veiðigjaldanefnd geti ekki sinnt störfum sínum. Samkvæmt því sem okkur hefur verið tjáð er fyrst og fremst um að ræða að ein ríkisstofnun túlki lög þannig að hún hafi ekki heimild til að afhenda nefndinni gögn frá sér sem nefndin telji sig hafa heimild til að kalla eftir. Þetta er því mál sem er greinilega mjög einfalt að leysa af hálfu Alþingis sem löggjafi, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi leggur þessa dagana mikið kapp á að ein ríkisstofnun geti fengið rúmar heimildir til að afla viðamikilla gagna um skuldamál heimilanna frá öðrum stofnunum og aðilum.
Einnig hefur okkur verið bent á að veiðigjaldanefnd hafi í raun aðgang að velflestum þeim gögnum sem hún þurfi til að reikna út veiðigjaldið svo að hún eigi að geta framkvæmt útreikninga sína með yfir 90% nákvæmni. Ef rétt er þá þyrfti eingöngu að setja reglu um hvernig skal taka á skekkjumörkum við ákvörðun veiðigjaldsins sem gæti jafnvel skilað ríkissjóði hærri tekjum en áætlaðar voru miðað við gott gengi sjávarútvegsins og auknar aflaheimildir.
Ef þessi atriði reynast rétt og við skorum á fjölmiðla að kanna þau til hlítar, þá er það leitt að ráðherra skuli telja sig þurfa að kasta fram fullyrðingum um óframkvæmanleika þegar vel er hægt að leysa málin með vilja og að því virðist í þeim tilgangi að dreifa athyglinni frá kjarna málsins sem er fyrirhuguð lækkun á veiðigjöldum fyrir afnot útgerðarinnar af sameiginlegri fiskveiðiauðlind allrar þjóðarinnar.“