Um 25.500 manns hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að breyta ekki veiðigjaldinu á þeim tveimur sólarhringum sem liðnir eru frá því undirskriftarsöfnunin var sett á stað.
„Ég hóf undirskriftasöfnunina vegna þess að mér blöskrar þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar; að hún skuli ætla að fella niður þetta veiðigjald en þurfi að hefja niðurskurð í velferðarkerfinu á móti þessum tugmilljörðum sem tapast,“ segir Ísak Jónsson, annar upphafsmanna undirskriftasöfnunarinnar, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Á vef undirskriftarsöfnunarinnar kemur fram að verði þingið ekki við ósk þeirra sem ritað hafa undir áskorunina verður listinn afhentur forseta Íslands og hann hvattur til að beita málskotsrétti sínum.