„Þrátt fyrir eindreginn vilja Ríkisábyrgðasjóðs til að upplýsa viðeigandi aðila um áhyggjur sínar virðast umsagnir og áhyggjur hans almennt hafa fengið lítið vægi. Að auki má nefna að Ríkisábyrgðasjóður hafði afar veik stjórntæki til að framfylgja hlutverki sínu og takmarkaðan pólitískan stuðning til að beita þeim stjórntækjum sem þó voru tiltæk.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð en hlutverk Ríkisábyrgðasjóðs er meðal annars að fylgjast með rekstri þeirra aðila sem ríkissjóður hefur gengist í ábyrgð fyrir. Ríkisábyrgðarsjóður hafi fylgst sérstaklega vel með stöðu Íbúðalánasjóðs á árunum 2004-2006 og bent ötullega á það sem honum hafi þótt athugavert.
„Til að fylgjast með stöðu ÍLS óskaði Ríkisábyrgðasjóður reglulega eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði sem var tregur til að láta þær af hendi og svaraði gjarnan seint enda þótt Ríkisábyrgðasjóður hefði lagalega heimild til að afla þeirra gagna sem hann taldi mikilvæg til að sinna eftirliti sínu,“ segir ennfremur í skýrslunni.
Vegna skorts Ríkisábyrgðasjóðs á nógu öflugum stjórntækjum til þess að fylgja eftir athugasemdum sínum og pólitískum stuðningi hafi Íbúðalánasjóður komist upp með það að taka lítið tillit til athugasemda og umsagna hans á umræddu tímabili sem verið hafi miklir umbrotatímar í sögu sjóðsins. Fram kom hjá nefndarmönnum á blaðamannafundi í dag að Ríkisábyrgðasjóður hafi í raun verið eina eftirlitsstofnunin sem hafi með þessum hætti vakið áhyggjum af stöðu Íbúðalánasjóðs.