„Raunveruleg hætta er á því að Íbúðalánasjóður geti komist í þrot, miðað við núverandi aðstæður á fjármálamarkaði.“ Þannig hófst fréttaskýring sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2004, þar sem fjallað var um þá stöðu sem Íbúðalánasjóður var kominn í eftir að bankarnir fóru í samkeppni við sjóðinn.
Eftir kosningarnar 2003 ákváðu stjórnvöld að bjóða fasteignakaupendum 90% lán. Þessu stefnumáli hrinti Íbúðalánasjóður í framkvæmd árið 2004. Bankarnir ákváðu í kjölfarið að bjóða einnig 90% á mun lægri vöxtum en þeir höfðu áður boðið. Þetta leiddi til þess að stór hluti lántakenda Íbúðalánasjóðs ákvað að taka húsnæðislán hjá bönkunum og greiða upp eldri lán hjá Íbúðalánasjóði sem voru á óhagstæðari vöxtum. Margir milljarðar runnu inn í Íbúðalánasjóð sem þurfti skyndilega að koma þeim í ávöxtun.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð segir að sjóðurinn hafi tapað „54 milljörðum vegna uppgreiðslna og 103 milljörðum vegna uppgreiðsluáhættu“.
Grétar Júníus Guðmundsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, þekkti vel til lána Íbúðalánasjóðs og hann benti á það í desember 2004, að sjóðurinn væri í miklum vanda vegna þeirra breytinga sem hefðu orðið á fasteignalánamarkaði og hann gæti stefnt í þrot.
Í grein Grétars sagði um þetta atriði: „Raunveruleg hætta er á því að Íbúðalánasjóður geti komist í þrot, miðað við núverandi aðstæður á fjármálamarkaði. Líkurnar á því aukast með auknum uppgreiðslum á útlánum sjóðsins og einnig ef vextir á markaði haldast eins og þeir eru nú eða ef þeir lækka. Ástæðan fyrir þessu er einkum sú hvernig staðið var að skuldabréfaskiptum í tengslum við breytinguna úr húsbréfakerfinu yfir í hið nýja peningalánakerfi sjóðsins, sem tók gildi hinn 1. júlí síðastliðinn. Möguleikinn á því að þessi staða komi upp hefði ekki komið til ef ekki hefði verið ráðist í þau miklu skuldabréfaskipti sem ákveðin voru samfara lánakerfisbreytingunni með þeim hætti sem gert var.“
Hægt er að lesa fréttaskýringu Grétars í heild hér.
Grein Grétars vakti litla hrifningu hjá stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Hallur Magnússon, sviðsstjóri þróunar- og almannatengsla Íbúðalánasjóðs, sagði í samtali við RÚV sama dag og greinin birtist, að niðurstöður Grétars væru „hreint og klárt rangar“.
„Við gerum ráð fyrir því að bankar kæmu inn á þennan markað. Við gerum ráð fyrir verulegum uppgreiðslum og í því skyni héldum við eftir á annað hundrað milljarða í húsbréfum til þess að geta dregið út á móti uppgreiðslum. Í ofanálag var skiptimunur í skiptiútboðinu sem tryggir okkur fjármuni til þess að standa undir ennþá meiri uppgreiðslum, þannig að uppgreiðslur gætu orðið langt á 300 milljarða áður en það færi að ógna stöðu sjóðsins.“
Fréttamaður RÚV spurði í framhaldi af þessu svari: „En ef ályktanirnar sem þarna eru settar fram eru svona fjarri sannleikanum, hvers vegna er þá umfjöllunin með þessum hætti?
Hallur Magnússon svarar: „Það verður ritstjórn Morgunblaðsins að svara fyrir en ekki Íbúðalánasjóður.“
Grétar svaraði Halli í Morgunblaðinu daginn eftir og sagði í lok <a href="/greinasafn/grein/835739/?item_num=35&searchid=de92feb2240bb2aae29a248f0aa62e67d0badaac" title="mbl.is">greinar sinnar</a>: „<span>Það er miður að upplýsingastjóri jafnmikilvægrar ríkisstofnunar og Íbúðalánasjóður er skuli ekki geta rætt efnislega um þau vandamál sem geta blasað við sjóðnum. Vonandi verður umfjöllun Morgunblaðsins í gær til þess að sjóðurinn gefi upp hvernig hann ætlar að fara að því að ávaxta það fé sem hann fær inn vegna uppgreiðslna á útlánum sínum. Það væri uppbyggilegra en upphrópanir.</span>“