„Það er auðvelt að vita betur í dag. Það er erfiðara að líta um öxl og viðurkenna að stjórnmálamennirnir og Alþingi brugðust líka,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar þingsins um Íbúðalánasjóð. Hún sagði ljóst að skýrslan væri hörð og óvægin en innihald hennar ætti ekki að koma þingmönnum á óvart enda væri hún efnislega í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna.
Eygló sagði ljóst að nánast engin opinber stofnun sem átt hafi hlut að máli sé undanskilin gagnrýni. Framkvæmdavaldið - og þar með talið eftirlit með Íbúðalánasjóði - hafi brugðist. Efni skýrslunnar yrði ekki slitið frá þeirri staðreynd að hér hafi orðið efnahagshrun. Íbúðalánasjóður hefði ekki farið varhluta af því enda hefði 80% af bókfærðu tapi sjóðsins komið til eftir það. Þegar hefði verið gripið til almennra úrbóta í íslenskri stjórnsýslu í kjölfar hrunsins og þar á meðal í tengslum við starfsemi Íbúðalánasjóðs.
Þegar stefnt að endurskoðun húsnæðismála
Eygló vakti athygli á því að eitt af þeim verkefnum sem kveðið væri á um í þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu heimilanna í landinu sem samþykkt hefði verið í síðustu viku væri að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem væri í samræmi við efni þingsályktunartillögu sem skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð byggði á.
Verkefni slíkrar verkefnisstjórnar yrði einkum tvíþætt að hennar áliti. Annars vegar að leggja fram tillögur að því hvaða fyrirkomulag á almennum húsnæðismarkaði væri hagkvæmast og hvernig því yrði komið á. Hins vegar að leggja fram tillögur að því með hvaða hætti stjórnvöld gætu sinnt afmörkuðu hlutverki við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði. Það væri að hennar áliti í samræmi við tillögur rannsóknarnefndarinnar.
Mikilvægast að ná breiðri samstöðu
„Það sem ég tel þó mikilvægast í þessu samhengi er að sem breiðust sátt og samstaða náist um skipulag íslensks húsnæðiskerfis. Ég mun því leggja ríka áherslu á að sem flestir komi að endurskipulagningu húsnæðiskerfisins og mun því á næstunni óska tilnefninga í samvinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að vera framangreindri verkefnisstjórn til ráðleggingar,“ sagði Eygló og bætti við að hún myndi meðal annars leita eftir tilnefningum frá þeim þingflokkum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti ættu á Alþingi.
„Vonandi berum við gæfu til að koma á fyrirkomulagi sem reynist okkur farsælt til framtíðar þannig að hvorki við né komandi kynslóðir eigi eftir að standa í þeim sporum sem við stöndum nú í. Ég er jafnframt ekki í vafa að sú vinna sem við höfum hér fyrir framan okkur muni nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem framundan er en áætlað er að þeirri vinnu verði lokið í ársbyrjun 2014.“