Rannsóknarskýrslan um Íbúðalánasjóð einkennist af menntahroka, að mati fyrrverandi stjórnenda sjóðsins sem boðaðir voru fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag. Þeir sögðu margt í skýrslunni beinlínis rangt og að fullyrðingar um tap sjóðsins væru ótrúlegar.
Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri íbúðalánasjóðs, hóf mál sitt á því að þakka fyrir að fá loks n.k. andmælarétt, því hann hefðu þeir ekki fengið fyrir útgáfu skýrslunnar.
Hann benti jafnframt á að Íbúðalánasjóður lifi þrátt fyrir allt enn, þrátt fyrir að menntun þeirra sem honum stjórnuðu hafi „ekki verið til að hrópa húrra fyrir“, en hins vegar hafi heilt bankakerfi hrunið til grunna á einni viku með öllu því „menntafólki sem þar var innanborðs“.
Gunnar S. Björnsson fyrrverandi stjórnarformaður ÍLS tók í svipaðan streng og sagði það helst rýra rannsóknarskýrsluna hvað þar væru margir sleggjudómar settir fram.
Hann gagnrýndi athugasemdir skýrsluhöfunda um vanhæfni stjórnenda. Sagði hann það stundum einkenna „framsetningu okkar Íslendinga til ýmissa hluta hvað menntahrokinn er orðinn mikill í landinu. Það virðist ekkert tillit vera tekið til þess að menn hafa kannski áratuga reynslu í þeim hlutum sem um er að ræða.“
Sjálfur sagðist Gunnar hafa þá upplifun að reynsla manna í þjóðfélaginu skipti stundum meiru en skólaganga. „Og þar er ég gjörsamlega ósammála skýrsluhöfundum um að við höfum verið vanhæfir. Ég held að stjórnarmenn Íbúðalánasjóðs hafi skilað mjög góðu starfi.“
Hákon Hákonarson fyrrverandi formaður og varaformaður stjórnar ÍLS lýsti einnig þeirri skoðun sinni að skýrsluhöfundar leggi of mikla áherslu á formlega menntun en geri lítið úr reynslu. Sá undirtónn skýrslunnar að vanda sjóðsins megi rekja til menntunar stjórnarmanna sé áhugaverður svo ekki sé meira sagt.
Guðmundur Bjarnason setti út á ýmislegt sem fram kemur í skýrslunni en hann sagðist fyrst og fremst vilja mótmæla „ótrúlegum fullyrðingum“ um að sjóðurinn hafi tapað 270 milljörðum króna.
„Þetta finnst mér ótrúverðugast í skýrslunni,“ sagði Guðmundur og benti á að af hálfu núverandi stjórnenda Íbúðalánasjóðs sé talið að 64 milljarðar séu tapaðir.
Hann sagði af 12-14 miljarðar af því tapi megi rekja beinlínis til samskipta við bankakerfið og þess m.a. að skuldabréf voru sett skör lægra en innstæður í neyðarlögunum, sem varð til þess að Íbúðalánasjóður tapaði lausafé sínu í bönkunum þegar allt hrundi.
Um 8 milljarða tap megi rekja til 110% leiðar stjórnvalda og síðan sé reiknað með um 22 milljörðum vegna væntra tapa. Þeir töpuðu 20 milljarðar sem þá standa eftir má að sögn Guðmundar rekja til tapaðra útlána, jafnt til einstaklinga og lögaðila.
Þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lögðu á það áherslu að fá þyrfti svör við því hvert tap sjóðsins væri. Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, sagði þennan mun á málflutningi rannsóknarnefndar og fyrrverandi stjórnenda stinga í augu. Það skipti sannarlega máli hvort tap sjóðsins nemi 64 milljörðum eða 270 milljörðum.