Boðað hefur verið til mótmæla við niðurskurði Ríkisútvarpsins í nýju fjárlagafrumvarpi og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Mótmælin eru boðuð á morgun, fimmtudaginn 28. nóvember kl. 12:30 fyrir utan Efstaleiti 1.
Að sögn þeirra sem standa að mótmælunum er með niðurskurðinum grafið undan öflugri fréttamennsku hjá RÚV og er menningarhlutverki stofnunarinnar stefnt í alvarlega hættu. Auk þess sé hlutverk RÚV ómetanlegt, bæði til fræðslu og skemmtunar.
„Ríkisútvarpið er okkar og við þurfum á því að halda. Það er tími til kominn að standa vörð um RÚV. Það er okkar skylda,“ segir í lýsingu á viðburðinum á Facebook.