Ráðherra lækki útvarpsgjaldið

mbl.is/Eva Björk

Samband ungra sjálfstæðismanna skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að berjast fyrir skattalækkunum með því að standa ekki í vegi fyrir lækkun útvarpsgjaldsins um 1.400 krónur á mann.

Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn SUS hefur sent frá sér. 

Þar segir jafnframt, að það sé hægt uppfylla grunnhlutverk Ríkisútvarpsins með öðrum og hagkvæmari leiðum en rekstri á ríkisstofnun sem beri sig ekki að óbreyttu. Bent er á, að Ríkisútvarpið hafi tapað 800 milljónum króna frá árinu 2007 og virðist sem að alltaf sé hægt að velta tapinu yfir á íslenska skattgreiðendur.

Þá segir SUS, að nýleg skýrsla nefndar um málefni Ríkisútvarpsins sýni einnig að stofnunin nái varla að sinna því hlutverki sem henni beri. Það sé tímabært að endurskilgreina þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil. Þá hafi ohf-formið ekki náð að sýna gildi sitt, og væri því rétt að leggja Ríkisútvarpið ohf. niður í núverandi mynd.

„Það er mikill misskilningur að íslensk menning þrífist ekki án aðkomu Ríkisútvarpsins. Þeim fjármunum, sem varið hefur verið í óhagkvæman rekstur stofnunarinnar, hefði getað verið mun betur varið, til dæmis með sérstökum styrktarsjóð fyrir framleiðslu innlends efnis, eða til varðveislu á menningararfleifð og sögu þjóðarinnar. Samkeppni á fjölmiðlamarkaði verður ekki tryggð að fullu fyrr en ríkið dregur sig alfarið af markaðinum,“ segir í ályktun SUS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Guðmundur Frímann Þorsteinsson: Flott
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert