Starfsmönnum Ríkisútvarpsins hefur fækkað talsvert frá hruni, en um síðustu áramót voru starfsmenn 37 færri en þeir voru árið 2007. Starfsmönnum fjölgaði um sjö á síðasta ári.
Um síðustu áramót störfuðu 305 starfsmenn á RÚV. Tilkynnt var í dag að RÚV ætli að fækka starfsmönnum um 60 og að 39 verði sagt upp störfum.
Þetta er í fjórða sinn síðan sumarið 2008 sem gripið er til fjöldauppsagna hjá Ríkisútvarpinu. Í lok júní 2008 var 20 starfsmönnum sagt upp á RÚV. Í lok nóvember 2008 var 44 starfsmönnum til viðbótar sagt upp. Í janúar 2010 var 50 sagt upp og í dag var tilkynnt um að starfsmönnum yrði fækkað um 60.
Árskýrslu RÚV sýna að starfsmönnum hefur fækkað frá hruni, en ekki eins mikið og ætla má miðað við þessar uppsagnir. Ástæðan er m.a. sú að nýtt fólk hefur verið ráðið til starfa.
Hópur manna hvetur til undirskriftasöfnunar á netinu þar sem skorað er á stjórnvöld að afturkalla uppsagnirnar.