„Starfsfólk er lamað“

mbl.is/Sigurður Bogi

„Starfsfólk er lamað. Fólk er bara í sjokki. Þetta er í fjórða skiptið sem við göngum í gegnum svona dag síðan sumarið 2008 og þetta venst illa,“ segir Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu, en verið er að segja upp starfsfólki á stofnuninni.

Hallgrímur segir að þessa stundina séu stjórnendur RÚV að kalla starfsmenn á sinn fund til að afhenda þeim uppsagnarbréf. Hann sagðist ekki vita nákvæmlega hversu mörgum yrði sagt upp. Páll Magnússon útvarpsstjóri hefði boðað fund með starfsfólki á föstudaginn.

Hallgrímur sagði að uppsagnirnar væru úr öllum deildum Ríkisútvarpsins. Verið væri að segja upp bæði reynslumiklu fólki og fólki sem hefði styttri starfaldur. Sumum hefði verið boðinn starfslokasamningur.

Hallgrímur sagði að verið væri að segja fólki upp á fréttastofunni. Hann kvaðst reikna með að fundað yrði með fréttamönnum fljótlega til að gera þeim grein fyrir breytingum sem gerðar yrðu á fréttaþjónustu stofnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert