Yfir þúsund standa með Rúv

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríflega þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli, vegna yfirvofandi niðurskuðar til Ríkisútvarpsins, í hádeginu á morgun, samkvæmt facebook-síðu viðburðarins.

Yfir 10 þúsund facebook notendum er boðið til leiks og segjast þar af 1.013 ætla að mæta, eins og málin standa þegar þetta er skrifað.

Boðað er til mótmælanna fyrir utan Efstaleiti 1 klukkan 12:30 á morgun.

Menningarhlutverki stefnt í hættu

„Við mótmælum yfirvofandi niðurskurði til Ríkisútvarpsins í nýju fjárlagafrumvarpi og þeirri forgangsröðun sem þar birtist hjá ríkisstjórninni,“ segir í atburðalýsingu viðburðarins.

„Með niðurskurði eins og þessum er grafið undan öflugri fréttamennsku hjá RÚV og menningarhlutverki stofnunarinnar stefnt í alvarlega hættu. Hlutverk RÚV er ómetanlegt, bæði til fræðslu og skemmtunar.

Ríkisútvarpið er okkar og við þurfum á því að halda. Það er tími til kominn að standa vörð um RÚV og starfsfólk þess.“

Til mótmælanna boða þær Arngunnur Árnadóttir, klarinettuleikari hjá Sinfóníhljómsveit Íslands, og Valgerður Þóroddsdóttir ljóðskáld og listgagnrýnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert