Ekki niðurskurður heldur niðurrif

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

„Kröfur um sparnað eru vel skiljanlegar á erfiðum tímum. En það niðurrif sem nú hefur átt sér stað hjá bæði Ríkisútvarpinu og Vinnumálastofnun munu til lengri tíma er litið alltaf koma til með kosta meira en sparnaðurinn sem á að ná fram.“

Þetta segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í nýjum pistli á heimasíðu samtakanna í tilefni af uppsögnum 60 starfsmanna Ríkisútvarpsins sem tilkynnt var um í gær. Hún bendir þar á að þær aðgerðir séu einungis það síðasta í fjölda uppsagna innan almannaþjónustunnar. Þannig hafi nýverið verið sagt upp fjölda opinberra starfsmanna til að mynda hjá Sérstökum saksóknara og Vinnumálastofnun. Ástandið í heilbrigðisþjónustunni þekki síðan allir.

Hún segir viðbrögð Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, valda sér hugarangri. Hann hafi sagt að niðurskurðurinn á Ríkisútvarpinu væri í takt við annan niðurskurð hjá hinu opinbera „Það er erfitt að réttlæta að hér sé um niðurskurðaraðgerðir að ræða. Nær væri að kalla aðgerðirnar niðurrif. Miðað við stöðuna eins og hún birtist okkur núna er þessum stofnunum ómögulegt að standa undir lögboðnum hlutverkum sínum.“

Elín Björg segir að sú spurning vakni óhjákvæmilega hvort þetta sé það sem koma skuli. „Megum við eiga von á því að fjöldi stofnanna og opinberra fyrirtækja þurfi að segja upp allt að fimmtungi starfsmanna sinna? Er það stefna stjórnvalda að hola stofnanir svo mikið að innan að starfsemi þeirra verður framvegis í mýflugumynd þannig að þegar fram líður sé auðveldara að réttlæta einkavæðingu þeirra eða hreinlega að leggja þær niður?“

Pistill Elínar Bjargar Jónsdóttur í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert