„Stjórn Ríkisútvarpsins var í dag sammála um tvennt. Annars vegar að hún harmar uppsagnirnar og að hún vill að stjórnvöld skili peningunum til stofnunarinnar. Hins vegar var hún líka sammála um að það sé hlutverk stjórnarinnar að móta dagskrárstefnu til langs tíma og að hún ætli sér nú að vinda sér í það verkefni í samráði við fólk í landinu,“ sagði Björg Eva Erlendsdóttir, stjórnarmaður í stjórn Ríkisútvarpsins.
Í kvöldfréttatíma RÚV kom fram yfirlýsing frá stjórn RÚV um að hún mótmæli harðlega þeim niðurskurði sem Ríkisútvarpið hefur orðið fyrir á undanförnum árum þar sem hluti tekjustofna hans hafi verið skertur og hluti hans runnið til annarra verkefna ríkissjóðs. Þá harmar stjórnin uppsagnirnar sem tilkynnt var um í gær.
Björg segir að útvarpsstjóri hafi komið með fullmótaðar rekstrartillögur á aukafund stjórnar RÚV í byrjun nóvember sem meirihluti stjórnar samþykkti. Hún og Pétur Gunnarsson hafi hins vegar greitt atkvæði gegn tillögunum. „Ástæðan fyrir því að ég samþykkti þær ekki eru tvíþættar. Annars vegar sú að mér finnst óboðlegt fyrir stjórn sem á að vera stefnumótandi varðandi dagskrá til framtíðar, að hún fái svona knappan tíma til að kynna sér um hvað málið snýst og móti ekki stefnuna sjálf heldur standi frammi fyrir fengnum hlut með byssuna á gagnauganu, og hins vegar fannst mér sú forgangsröðun sem birtist í tillögunum ekki endurspegla hlutverk Ríkisútvarpsins,“ segir Björg.
Í lögum um Ríkisútvarpið segir í 10. gr. að hlutverk stjórnar sé meðal annars:
Að sögn Bjargar er staðið vörð um afþreyingarefnið, á meðan skorið er niður í menningar- og fræðsluhluta stöðvarinnar. „Í raun segi ég það sama og mennta- og menningarmálaráðherra hefur síðan sagt á Alþingi eftirá, að það eigi að verja sérstöðu Ríkisútvarpsins og passa upp á það sem RÚV gerir eitt, en aðrir gera ekki. Sú forgangsröðun fannst mér ekki koma fram í þessum tillögum.“
Björg segir stjórnina nú ætla að vinna í því að móta dagskrárstefnu til framtíðar. „Guðrún Nordal var sett í það verkefni að leiða hóp um stefnumótun RÚV til framtíðar hvað varðar dagskrá, og tel ég það vera mjög gott skref. Sá hópur mun taka til starfa fljótlega.“