Fetar í fótspor fyrri ríkisstjórna

Félag fréttamanna mótmælir harðlega uppsögnum og boðuðum niðurskurði á Ríkisútvarpinu. „Ríkisstjórnin fetar í fótspor tveggja fyrri ríkisstjórna sem skáru sleitulaust niður í rekstri Ríkisútvarpsins og gerir stofnuninni, og þar með fréttastofunni, enn erfiðara að sinna sínu lögbundna hlutverki. Niðurskurðurinn nálgast nú fjórðung á þeim árum sem liðin eru frá hruni.“

Þetta kemur fram í ályktun frá Félagi fréttamanna sem samþykkt var á fundi þeirra í gærkvöldi.

„Starfsmenn Fréttastofu RÚV hafa unnið störf sín af fyllsta metnaði þrátt fyrir þann niðurskurð sem á hefur dunið og mælingar hafa ítrekað sýnt að fréttastofan nýtur mests trausts íslenskra fjölmiðla. Með þessum niðurskurði dregur úr þjónustu,  fréttatímum fækkar og þeir styttast, og fréttavinnsla á vefnum dregst saman. Sérstaklega harma félagsmenn að næturfréttir séu slegnar af, sem rýrir öryggis- og almannavarnaþátt RÚV til muna.

Þetta er í fjórða sinn á rúmum fimm árum sem stór uppsagnahrina dynur á fréttastofunni og stofnuninni í heild og óvíst er að allt sé búið enn. Það er óþolandi fyrir starfsfólk að búa við þá óvissu sem þetta veldur og hún hefur veruleg áhrif á störf þess. Með þessum niðurskurði versna starfsskilyrði fréttamanna og færri sjá framtíð í fréttamennsku.

Félag fréttamanna minnir á að samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið á það að  „stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings.“ Og í stefnu RÚV, sem stór hluti starfsmanna tók þátt í að móta, segir: „Tryggt verður að Fréttastofa RÚV hafi vettvang í dagskrá útvarps, sjónvarps og á vefnum til að sinna bæði daglegri fréttaþjónustu og kryfjandi fréttaskýringum.“ Stöðugur niðurskurður er ekki til þess fallinn að auðvelda RÚV að uppfylla þessi ákvæði.

Félag fréttamanna skorar á stjórnvöld að draga fyrirhugaðan niðurskurð til Ríkisútvarpsins til baka og að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að sinna hlutverki sínu án þess að búa við stöðuga óvissu.

Við minnum á að í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:

Ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins er mikil en þar hlýtur ábyrgð Ríkisútvarpsins að vega þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku.

Í nefndinni sátu Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Atli Gíslason og Magnús Orri Schram,“ segir í ályktun Félags fréttamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert