Adolf Ingi undirbýr málsókn

Adolf Ingi Erlingsson
Adolf Ingi Erlingsson mbl.is

„Ég er búinn að taka ákvörðun um þetta, en það er ekki eins og þetta sé daglegt brauð hjá manni. Þannig að ég er bara svona í rólegheitum að skoða þetta. Maður byrjar á því að ráðfæra sig við lögmann,“ segir Adolf Ingi Erlingsson, sem nýlega var sagt upp störfum sem íþróttafréttamanni á Rúv eftir 22 ára starf.

Adolf Ingi undirbýr nú málsókn á hendur stofnuninni vegna eineltis í sinn garð, en því lýsti hann í viðtali við Vísi.is í gær. Adolf Ingi segir í samtali við mbl.is að málið hafi enn ekki verið höfðað enda taki tíma að undirbúa það.

Hvatning frá fyrrverandi starfsmönnum

„Ég náttúrlega veit ekki hvað svona hlutir ganga hratt fyrir sig. Það er ekki eins og maður hafi staðið í þessu áður.“ Adolf Ingi hefur sagt að stöðva þurfi eineltiskúltúr innan Rúv. Hann bendir á að þetta sé ekki fyrsta dæmið innan stofnunarinnar og segir að síðan hann hafi stigið fram hafi hann heyrt frá fleirum sem kvitti undir þetta.

„Ég hef fengið ótrúleg viðbrögð, finnst mér. Ég hef heyrt frá fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins sem hvetja mig mjög áfram og tala um að þeir hafi ýmist verið hraktir úr starfi eða það illa verið komið fram við þá að þeim hafi liðið illa þarna.“

Fordæmi eru fyrir því að dæmdar séu miskabætur vegna eineltis á vinnustað. Má þar nefna að íslenska ríkið var árið 2009 dæmt til að greiða Ásdísi Auðunsdóttur miskabætur vegna eineltis sem hún varð fyrir af hálfu yfirmanns síns á Veðurstofu Íslands. Ásdís fór fram 19 milljónir króna en voru dæmdar 500 þúsund í bætur.

Árið 2010 töldu 26% ríkisstarfsmanna sig hafa orðið vitni að einelti á vinnustað síðustu 12 mánuði. Árið 2008 var hlutfallið 25%, samkvæmt könnunum um einelti meðal ríkisstarfsmanna.

Rúmlega 10% töldu sig hafa orðið fyrir einelti á vinnustað bæði árin, í flestum tilfellum af hálfu samstarfsfólks. Hinsvegar lögðu einungis 12% fram kvörtun vegna eineltis. Í 40% tilfella var þeirri kvörtun fylgt eftir með viðeigandi hætti.

Ríkisútvarpið RÚV
Ríkisútvarpið RÚV mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert