Hýðingaráverkar vöktu mesta athygli

Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason eru …
Stefán Blackburn, Stefán Logi Sívarsson og Hinrik Geir Helgason eru allir ákærðir í málinu.

Læknir sem tók á móti ungum manni sem bar að sér hefði verið rænt af heimili sínu og þurft að sæta langvarandi ofbeldi kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur eftir hádegið, þegar aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum hélt áfram. Málinu hefur nú verið frestað til 20. desember næstkomandi og heldur eftir það áfram eftir áramót.

„Maðurinn var að mínu viti lúbarinn og meiddur og það sem vakti mesta athygli voru hýðingaráverkar,“ sagði læknirinn. Hann sagði áverkana ekki samræmast neinum sem hann hefur séð af völdum slysfara. „Hann var með óvenjulega áverka á bakinu, áverka sem maður sér ekki oft: langar rákir, eins og hann hafi verið laminn með staf eða harðri línu.“

Læknirinn sagði áverka líkjast þeim sem sjást á föngum sem hafa verið hýddir í refsingaskyni. „Ég hef aldrei áður séð slíka áverka.“

Hann tiltók fleiri sérstaka áverka, s.s. mar á eyrum og að vörin hafi greinilega rifnað og verið saumuð saman með venjulegum tvinna eða hörtvinna. Það hafi ekki verið faglega gert og varla með neinu hreinlæti. Sárið hafi því verið orðið ansi ljótt.

Þá hafi maðurinn verið með svarta bletti bæði á bakinu og upphandlegg. Læknirinn sagði að það gæti samrýmst því að slökkt hafi verið í vindlingi á manninum. 

Nokkur fjöldi lyfja mældust í manninum: MDMA (sem er virka efnið í e-töflum), kókaín, kannabisefni, morfínlyf og róandi og slævandi lyf. Læknirinn sagði að meðal annars væru þar lyf sem gefin væru við berkjuspeglun. Þá sé viðkomandi með meðvitund en veitir ekki mótspyrnu og hefur ekki eðlileg viðbrögð við þeirri ágengni sem í spegluninni felst.

Læknirinn gat hins vegar ekki staðfest að kveikt hefði verið í manninum, eins og sakborningum er gefið að sök í ákæru. Maðurinn hafi ekki minnst á það við fyrstu skoðun og í endurkomu viku síðar fundust engin merki um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert