Eftirmaður Páls verði faglega skipaður

Mótmælt við höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti eftir uppsagnirnar um mánaðamótin.
Mótmælt við höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti eftir uppsagnirnar um mánaðamótin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem skiptir mestu máli núna er hver verður valinn í staðinn,“ segir Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu. „Það skiptir máli að staðið sé faglega að þeirri ákvörðun þannig að það sé einhver sem hefur vit á því hvernig á að reka fjölmiðil eins og Rúv.“

Páll Magnússon lætur af starfi útvarpsstjóra frá og með deginum í dag. Líkt og flestir aðrir starfsmenn Rúv heyrði Hallgrímur fyrst af þessari ákvörðun í hádeginu, þegar Páll sendi starfsfólki bréf þar sem hann sagðist ekki telja sig njóta nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins.

Aðspurður hvort brotthvarf Páls kunni að verða til þess að friður myndist um Rúv að nýju, eftir hópuppsagnirnar um síðustu mánaðamót, segir Hallgrímur að það hljóti að velta á því hvert framhaldið verður.

„Það er ekki hægt að neita því að það hafði skapast þrýstingur á Pál úr einhverjum áttu. Mér fannst Páll kannski fá fullmikið af skömmum á kostnað þeirra stjórnvalda sem tóku ákvörðun um niðurskurðinn, en framhaldið veltur algjörlega á því hvernig staðið verður að ráðningu eftirmannsins og hvort sá verði ráðinn á faglegum forsendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert