Óhjákvæmilegt að Páll hætti núna

Páll Magnússon lét af störfum sem útvarpsstjóri í dag.
Páll Magnússon lét af störfum sem útvarpsstjóri í dag. mbl.is

Tímasetning brotthvarfs Páls Magnússonar úr stóli útvarpsstjóra var óhjákvæmileg, að sögn formanns stjórnar Rúv. Ekkert er því til fyrirstöðu að Páll sæki um starfið aftur. Ákveðið verður á stjórnarfundi á fimmtudag hvort settur verði tímabundinn útvarpsstjóri þar til skipað verður í starfið.

Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnarformaður Rúv, staðfestir í samtali við mbl.is að trúnaðarbrestur sé ekki ástæða þess að Páll Magnússon lét af störfum í dag. 

Rétt að auglýsa starfið fyrir 5 ára samning

Ný lög um Ríkisútvarpið tóku gildi í vor, þar sem m.a. er kveðið á um að eftirleiðis skuli ráðið í starf útvarpsstjóra til 5 ára í senn, en til þessa hefur ráðningin verði ótímabundin.

Aðspurður hvers vegna þetta sé gert nú, nokkrum mánuðum eftir að lögin tóku gildi, segir Ingvi Hrafn að tímasetningin hafi verið óhjákvæmileg því störfum sitjandi stjórnar ljúki í janúar, en á henni hvíli sú lagaskylda að koma nýju ráðningarferli í farveg áður en hún lýkur störfum.

„Stjórnin mat það svo, og um það var afgerandi afstaða innan stjórnar, að þetta væri ákvörðun af þeirri stærðargráðu að óhjákvæmilegt væri að gera 5 ára ráðningarsamning að loknu umsóknarferli,“ segir Ingvi Hrafn. 

Ekkert sem bannar Páli að sækja um aftur

Með öðrum orðum þótti stjórn Rúv ekki við hæfi að gera 5 ára samning við Pál án þess að staðan yrði auglýst fyrst. Ingvi Hrafn segir hinsvegar aðspurður að ekkert sé því til fyrirstöðu að Páll sæki um starfið þegar það verður auglýst og fari í gegnum hið nýja ráðningarferli. „Það er ekkert sem bannar honum það.“

Formleg ákvörðun um þetta verður tekin á stjórnarfundi á fimmtudaginn, en Ingvi Hrafn segir að hann hafi viljað láta Pál vita með fyrirvara þar sem ljóst var að samstaða væri um þessa niðurstöðu í stjórn.

Á stjórnarfundinum á fimmtudag verður einnig tekin ákvörðun um það hvort annar verði settur tímabundið í starfið þar til nýr útvarpsstjóri hefur verið ráðinn. Í millitíðinni sinni framkvæmdastjórnin sínu hlutverki áfram.

En mun þetta skapa sátt um Rúv eftir ólguna síðustu vikur?

„Eins og við lýstum yfir í tilkynningunni til starfsfólks þá er það markmiðið sem við vinnum að og munum róa að öllum árum á næstu vikum og mánuðum, að tryggja sátt og frið um ríkisútvarpið.“

Ingvi Hrafn Óskarsson, er formaður stjórnar Ríkisútvarpsins.
Ingvi Hrafn Óskarsson, er formaður stjórnar Ríkisútvarpsins. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert