Staða útvarpsstjóra verður auglýst laus til umsóknar samkvæmt lögum. Páll Magnússon sagði starfi sínu lausu í dag og fram kemur í tilkynningu frá stjórn RÚV að það hafi verið sameiginleg ákvörðun. „Meginmarkmið okkar er að tryggja almenna og breiða sátt um Ríkisútvarpið og það er sameiginlegt verkefni okkar að búa svo um hnúta að hér sé rekið öflugt og metnaðarfullt Ríkisútvarp sem við getum öll verið stolt af,“ segir m.a. í tilkynningu stjórnarinnar.
Tilkynning stjórnar RÚV var send starfsfólki Ríkisútvarpsins og til annarra fjölmiðla:
„Stjórn Ríkisútvarpsins og Páll Magnússon útvarpsstjóri hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að hann láti af störfum frá og með deginum í dag. Í framhaldi af þessari niðurstöðu verður staða útvarpsstjóra auglýst laus til umsóknar samkvæmt lögum nr. 23/2013.
Stjórn RÚV vill þakka Páli vel unnin störf við erfiðar aðstæður á undanförnum árum. Stjórnin mun nú auglýsa stöðuna og fara yfir umsóknir. Mikilvægt er að vanda vel til verka í því ferli. Meginmarkmið okkar er að tryggja almenna og breiða sátt um Ríkisútvarpið og það er sameiginlegt verkefni okkar að búa svo um hnúta að hér sé rekið öflugt og metnaðarfullt Ríkisútvarp sem við getum öll verið stolt af. Ríkisútvarpið hefur verið og er einn af hornsteinum íslensks samfélags. Til að viðhalda þeirri sátt sem nauðsynleg er um starfsemina þarf að stuðla að því að ná víðtækri samstöðu og friði um RÚV, jafnt innan sem utan stofnunarinnar, þannig að Ríkisútvarpið geti sinnt sínu mikilvæga almannaþjónustuhlutverki með sóma. Ríkisútvarpið hefur á undanförnum árum, líkt og aðrir íslenskir fjölmiðlar, þurft að horfast í augu við erfiða fjárhagsstöðu með sársaukafullum aðgerðum. Það er hins vegar mat stjórnar að hvorki núverandi fjárhagsstaða fyrirtækisins né sá fjárhagslegi rammi sem Ríkisútvarpinu hefur nú verið markaður kalli á frekari uppsagnir.
Á næstu vikum og mánuðum verður farið í stefnumörkun þar sem farið verður yfir hvernig Ríkisútvarpið geti best gegnt skyldum sínum og þjónustu við landsmenn í samræmi við þann fjárhagslega ramma sem fyrirtækinu hefur verið markaður og þau lög sem í gildi eru. Þetta verður ekki auðvelt verkefni en skiptir öllu máli fyrir framtíð Ríkisútvarpsins. Til að vel takist til er mikilvægt að við snúum bökum saman. Því mun stjórnin leita eftir liðsinni ykkar allra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu við mótun á áherslum til framtíðar. Það er okkar ósk og vissa að starfsfólk muni sinna þessu kalli og allir leggjast á eitt við að tryggja að Ríkisútvarpið verði hér eftir sem hingað til sá vettvangur íslenskrar menningar og samfélagsumræðu sem allir eru stoltir af að starfa hjá.“