Endurtekið efni í stað Næturvaktarinnar

mbl.is/Ómar

Útsendingum Rásar 2 á Næturvaktinni á  föstudags- og laugardagskvöldum hefur verið hætt og þess í stað verður endurfluttir þættir sem voru á dagskrá á síðasta áratug á föstudagskvöldum og þættir frá því í fyrra á laugardagskvöldum.

 Á föstudagskvöldum frá klukkan 22.00 til miðnættis verða sérvaldir þættir af Geymt en ekki gleymt endurfluttir, segir í fréttatilkynningu frá RÚV.

Þættirnir voru á dagskrá Rásar 2 á árunum 2002-2008 en í þeim tók Freyr Eyjólfsson fyrir eina plötu úr íslensku dægurtónlistarsögunni, spilaði lög af henni auk þess að spjalla við tónlistarmennina á bak við plöturnar. Í fyrsta þættinum sem endurfluttur í kvöld er Bjartmar Guðlaugsson gestur og fjallað er um plötu hans Með vottorð í leikfimi.

 Á laugardagskvöldum mun Rás 2 síðan endurflytja þættina Árið er... íslensk dægurlagasaga í tali og tónum, sem voru á dagskrá Rásarinnar á síðasta ári. Í þáttunum eru helstu straumar og stefnur í íslenskri tónlist til umfjöllunar og eitt ár tekið fyrir í einu frá árinu 1983, en þá fór Rás 2 í loftið, auk þess sem drepið er á helstu dægurmálum samtímans hverju sinni. Í fyrsta þættinum, sem endurfluttur verður lá morgun er tónlistarárið 1983 til umfjöllunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert