Reynir Traustason, ritstjóri DV, segir ekkert hæft í því að hann hafi haft í hótunum við Þóreyju Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmann innanríkisráðherra, í kjölfar þess að hún mætti í viðtal í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Þórey segir að Reynir hafi hringt og hótað að fara í hana ef hún bæðist ekki afsökunar á þeim ummælum sínum að verið væri að reyna að koma höggi á innanríkisráðherra vegna leka á gögnum um hælisleitanda. Reynir viðurkennir í samtali við mbl.is að fokið hafi í sig en hann hafi ekki ætlað að hóta Þóreyju eða koma henni úr jafnvægi. Með orðalaginu hafi hann einfaldlega átt við að hann myndi svara Þóreyju fullum hálsi.
Reynir segir að símtalið í morgun sé ekki það fyrsta sem fari á milli hans, innanríkisráðherra og Þóreyjar vegna máls hælisleitandans. Þær hafi ítrekað haft samband og viljað að DV hætti umfjöllun um málið.