Sakaði saksóknara um árás

Stefán Blackburn.
Stefán Blackburn.

„Þessi ósmekklega aðdróttun eða árás gæti verið tilefni réttarfarssektar,“ sagði Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Stefáns Blackburn, í málflutningsræðu. Ástæðan var sú að saksóknari upplýsti að eitt vitnið í málinu hefði verið flutt af Litla-Hrauni og draga mætti trúverðugleika þess í efa.

Stefán Karl sagði saksóknara ekkert hafa með það að gera, að upplýsa dóminn um að tiltekin vitni hefðu verið í gæsluvarðhaldi þegar þau komu fyrir dóminn til að gefa skýrslu og að það ætti ekki að draga úr trúverðugleika þess, enda viðkomandi vitni saklaust þar til sekt væri sönnuð.

Umrætt vitni var kallað fyrir dóminn til að bera um atvik á Smiðjustíg í miðborg Reykjavíkur en Stefán Blackburn er meðal annars ákærður í málinu fyrir að hafa ráðist þar að tilefnislausu á karlmann. Vitnið sagðist hafa verið með árásarmanninum umrætt skipti en hann þekkti hann ekki og gæti því ekki nafngreint hann. Vitnið væri hins vegar fullvisst um að það væri ekki Stefán Blackburn.

Í málinu liggur fram upptaka úr eftirlitsmyndavélum og lagði ákæruvaldið fyrir dómara mynd úr henni af umræddri árás. Á upptökunni má sjá að viðkomandi árásarmaður er með áberandi húðflúr á hendi. Saksóknari lét dómara einnig í té mynd af Stefáni Blackburn þar sem sést í sama húðflúr.

Stefán Karl sagði þetta vissulega benda til þess að Stefán Blackburn hefði verið að verki en fara þyrfti afar varlega í sakfellingu, enda væri upptakan úr eftirlitsmyndavélinni óljós og vitni bæri um að Stefán Blackburn hefði ekki verið á vettvangi. Sjálfur hefði Stefán Blackburn ekki kannast við sjálfan sig á upptökunni og fórnarlambið þekkti ekki Stefán Blackburn.

Ennfremur benti Stefán Karl á það að lögregla virtist velja sér rannsóknaraðferðir eftir því hvað hentaði henni. Þannig væru engin símagögn í málinu frá þessum tíma en lítið mál hefði verið að fá þau hjá símafyrirtækjum. Hugsanlega hefði það verið gert en gögnin ekki hentað lögreglu í rannsókninni. Þarna vantaði því sönnunargögn.

Að endingu, hvað þennan ákærulið varðar, sagði Stefán að ónákvæmni gætti í læknisvottorði. Fórnarlambið hefði ekki nefbrotnað eins og segir í ákæru heldur hefði nefbein skekkst. Það væri því ekki stórfelld líkamsárás heldur minniháttar.

Málflutningur heldur áfram í málinu en stefnt er að því að honum ljúki síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert