Magnús Geir: „Þetta eru spennandi tímar“

Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta leggst afskaplega vel í mig og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þessa skemmtilegu áskorun. Það eru ótal möguleikar í Ríkisútvarpinu og framtíðin er björt,“ segir Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, í samtali við mbl.is. Stjórn RÚV ákvað í gærkvöldi að bjóða Magnúsi Geir stöðuna og var ákvörðunin samhljóða.

Aðspurður segir Magnús Geir að ákvörðun stjórnarinnar hafi að vissu leyti komið sér á óvart en á sama tíma ekki. „Ég hefði ekki sótt um ef ég teldi ekki að mín þekking og reynsla nýttist í þessu starfi,“ segir Magnús Geir og bendir á að aftur á móti hafi fjöldi hæfra umsækjenda sótt um starfið. „Það var gott að heyra að ákvörðunin var einróma. Þetta eru spennandi tímar.“

Ekki hefur verið ákveðið hvenær Magnús Geir hefur störf hjá Ríkisútvarpinu. Nú þurfi að ganga frá því hvernig starfslokum hans hjá Borgarleikhúsinu verður háttað. „Það verður allt gert mjúklega og í góðri sátt,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Magnús Geir gerir ráð fyrir að fyrstu vikurnar á nýja vinnustaðnum fari í að hitta starfsfólk RÚV og kynna sér starfsemina enn betur.

Frétt mbl.is: Magnús Geir ráðinn útvarpsstjóri



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert