Kærir ráðherra vegna minnisblaðsins

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Morgunblaðið/Kristinn

Kona, sem er nafngreind og er til umfjöllunar í minnisblaði sem fullyrt er að hafi verið lekið úr innanríkisráðuneytinu, kærði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra til lögreglu í dag. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður konunnar, segir að Hanna Birna sé kærð sem yfirmaður ráðuneytisins.

„Hún kærir Hönnu Birnu fyrir að hafa dreift persónuupplýsingum um sig úr ráðuneytinu,“ segir Helga Vala. „Eða réttara sagt, hún hefur fengið af því fregnir, konan, að þessum upplýsingum um sig hafi verið dreift frá ráðuneytinu.“

Um er að ræða minnisblað sem varðar hælisleitanda, þar sem gerð var grein fyrir því hvers vegna frestun á brottvísun hans hefði ekki verið tekin til greina.

Segir konuna ekki fá upplýsingar nema úr fjölmiðlum

Að sögn Helgu Völu hefur konan ítrekað gengið eftir því við ráðuneytið að fá upplýsingar um málið. „Sú beiðni var móttekin af ráðuneytinu og henni sagt að hún fengi upplýsingar innan tíðar. Þrátt fyrir að hafa ítrekað þá beiðni sína þá hefur henni ekki verið svarað af ráðuneytinu. Einu upplýsingarnar sem hún hefur fengið koma úr fjölmiðlum.“

Þetta er þriðja kæran sem lögð er fram í málinu, en áður hafa verið lagðar fram kærur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og til ríkissaksóknara. Þeirri síðarnefndu var í síðustu viku vísað til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert