Ebba Guðný Guðmundsdóttir hefur undanfarna viku fylgst með réttarhöldunum yfir spretthlauparanum Oscar Pistorius sem fara fram í borginni Pretoríu í Suður-Afríku. Ebba hefur þekkt Pistorius náið frá árinu 2005, og hefur hann reynst Hafliða syni hennar vel, en báðir fæddust án sperrileggja, með stúfa fyrir neðan hné.
Ebba Guðný hefur farið í nokkur viðtöl í suðurafrískum fjölmiðlum, en það hefur vakið nokkra athygli að hún skuli hafa komið alla leið frá Íslandi til að sýna vini sínum stuðning. Í viðtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar segir Ebba Guðný að kynnin við Pistorius hafi breytt lífi sonar hennar.
„Ég sagði við hann: Oscar, geturðu kannski tekið af þér fæturna og sýnt Hafliða að þið eruð eins. Ég var ekki viss um að sonur minn áttaði sig á því að þeir tveir væru eins,“ segir Ebba Guðný í samtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar.
„Hann tók þá af, lyfti Hafliða upp og tók hann í fangið og sagði: Sjáðu Hafliði. Sjáðu fæturna á mér, fæturna á þér. Við erum eins,“ segir Ebba. „Sonur minn breyttist á þessu andartaki. Ég á honum [Pistoriusi] margt að þakka og það væri einkennilegt ef ég væri ekki hér.“
Ebba segir í viðtalinu að henni þyki erfitt að ræða um Pistorous. „Eins og ég sé að baktala hann. En það sem ég get sagt er að hann er niðurbrotinn.“