Ræða kjaramál og breytingar á RÚV

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Félagsfundur Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu (RÚV) fer fram í kvöld. Að sögn Hallgríms Indriðasonar, formanns félagsins, verða kjaramál og breytingar sem kynntar voru af Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra, fyrr í vikunni til umræðu á fundinum.

Aðspurður segir Hallgrímur að um reglulegan félagsfund sé að ræða. Staðið hafi til að halda fund á næstunni og ræða kjaramál en þegar breytingarnar voru kynntar fyrr í vikunni var ákveðið að halda fundinn í dag. „Þegar þessi tíðindi bárust taldi ég að tilefni væri til að ræða þau við mína félaga og ákveða hvort ástæða sé til að bregðast við á einhvern hátt,“ segir Hallgrímur í samtali við mbl.is. Hann gerir ráð fyrir að breytingarnar verði ræddar ítarlega.

Skipulagsbreytingarnar sem kynntar voru fela meðal annars í sér að öllum framkvæmdastjórum RÚV verði sagt upp störfum og ný framkvæmdastjórn skipuð þar sem lögð verður áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika. Þá verði aukin áhersla lögð á innlenda framleiðslu, jafnrétti og nýmiðlun.

Fyrr í vikunni sagði Hallgrímur að starfsmenn RÚV væru frekar jákvæðir gagnvart breytingunum. „En ef ég tala fyrir fréttastofuna eru menn almennt þeirrar skoðunar að Óðinn eigi að sækja um þegar starfið verður auglýst,“ segir hann í samtali við mbl.is fyrr í vikunni, en Óðni Jónssyni, fréttastjóra, var sagt upp störfum ásamt allri framkvæmdastjóri RÚV.

„Það hefur borið á óánægju. Það er ekki sama hvernig skipt er um stjórnendur. Þó maður hafi skilning á rökum Magnúsar Geirs, sem er að gera skipulagsbreytingar og vill byrja með hreint borð, þá finnst mér breytingar á sviðum ekki vera rök fyrir því að segja fréttastjórum upp,“ segir Hallgrímur í samtali við mbl.is í dag, inntur eftir því hvort ónægja væri vegna uppsagnar Óðins. 

Frétt mbl.is: Frekar jákvæðir gagnvart breytingunum.
Frétt mbl.is: Öllum framkvæmdastjórum sagt upp. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert