Í vissum sparisjóðum nutu ákveðnir aðilar fyrirgreiðslu umfram aðra viðskiptamenn sökum tengsla við þá. Á það sérstaklega við um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Það endurspeglaðist einna helst í miklum lánveitingum til félaga án fullnægjandi trygginga. Í nokkrum tilvikum lánuðu sparisjóðir til kaupa á stofnfjárbréfum þar sem bréfin sjálf voru sett að veði, sem óheimilt var skv. 1. mgr. 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. Skýrslan er kynnt á blaðamannafundi í Iðnó. Nefndin var skipuð í ágúst 2011 og var skýrslan því rúmlega tvö og hálft ár í smíðum. Hún er um 2000 blaðsíður að lengd.
Hrannar Hafberg, lögfræðingur og formaður nefndarinnar, afhenti forseta Alþingis fyrsta eintak skýrslunnar í dag en vefútgáfa hennar hefur verið gerð opinber á Alþingisvefnum.
Í skýrslunni kemur fram að heildarkostnaður sem þegar hefur fallið til vegna erfiðleika og falls sparisjóðanna er rúmir 33 milljarðar króna. Í árslok 2012 var stofnfé í eigu ríkisins 1,9 milljarðar króna en á árinu 2013 voru afskrifaðar 213 milljónir króna af stofnfé ríkissjóðs í sparisjóðunum. Mögulegar endurheimtur ríkisins á stofnfé sparisjóðanna velta á sölu stofnfjár eða samruna þeirra við aðrar fjármálastofnanir. Enn ríkir óvissa um hvort og hversu há fjárhæð muni falla til vegna uppgjörs við slitastjórn Sparisjóðabankans. Seðlabankinn lýsti 215 milljarða króna kröfu í þrotabú bankans og hefur lítill hluti krafnanna verið samþykktur.
Á blaðamannafundinum er farið yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar, þar á meðal starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna, útlán, fjárfestingar, stofnfjáraukningar, arðgreiðslur og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra.
Í skýrslunni kemur fram að ávöxtun fjáreigna sparisjóðakerfisins fylgdi uppgangi og falli skráðra hlutabréfa að mestu leyti frá 2001 til 2008. Vöxtur fjáreigna sparisjóðakerfisins stafaði fyrst og fremst af gengisbreytingum hlutabréfa og minna af nýjum fjárfestingum. Kaupþing hf., Exista hf., Kista – fjárfestingarfélag ehf., Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanki hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. mynduðu meiri hluta afkomu sparisjóðanna af fjáreignum á tímabilinu sem rannsóknin náði til.
Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf. voru félög sem stofnuð voru meðal annars til að draga úr áhrifum fjárfestinga í fjármálafyrirtækjum á eiginfjárútreikninga sparisjóðanna. Ákveðna fyrirmynd að félögunum var að finna í félaginu Scandinavian Holding S.A. sem stofnað var utan um eign sparisjóðanna í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Fjármálaeftirlitið ákvað í desember 1999 að almennt skyldu félög í meirihlutaeigu sparisjóðanna gerð upp með hlutfallslegum samstæðureikningsskilum við eiginfjárútreikninga og setti fram ákveðin viðmið þar um. Eignarhaldsfélög um fjárfestingar sparisjóða í fjármálafyrirtækjum ættu ekki að breyta áhættuútreikningum og skipti ekki máli með hvaða hætti eigendurnir sjálfir kæmu að fjármögnun félaganna.
Í svörum Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurnum rannsóknarnefndarinnar um hvort beita hefði átt sömu aðferðum við eiginfjárútreikninga Kistu og Scandinavian Holding kom fram að á meðan áhætta einstakra sparisjóða vegna Kistu hefði eingöngu verið bundin við hlutafé í félaginu, hefði ekki verið nauðsynlegt að krefjast hlutfallslegra samstæðureikningsskila til að koma í veg fyrir að sama eigið fé væri notað oftar en einu sinni.
Bókfært virði hlutafjár sparisjóðanna í Kistu var mun lægra en bókfært virði hlutafjár í Exista hf. sem Kista keypti af sparisjóðunum. Að því leytinu til var áhætta sparisjóðanna minni af óbeinni eign af bréfum í Exista hf. sem Kista átti, en verið hefði af sömu eign ef hún hefði verið á bókum sparisjóðanna: tap sparisjóðanna gat ekki orðið meira af eigninni í Kistu en bókfært virði hennar og það var sannanlega lægra en virði hlutanna í Exista. Munurinn á virði hlutanna í Kistu annars vegar og Exista hins vegar felst í skuldsetningu fjárfestingarfélagsins, en þrír bankar lánuðu félaginu til að kaupa bréf af eigendum sínum.
Með því að stofna sérstakt eignarhaldsfélag um hluta eignar sinnar í Exista hf., sem fjármagnað var af þriðja aðila, gátu sparisjóðirnir notið góðs af gengishækkunum bréfa í Exista hf. en minnkað íþyngjandi áhrif eignarinnar á eiginfjárgrunninn. Lánveitendur Kistu gátu hæglega litið svo á að lánin væru ekki einungis til félagsins sjálfs heldur myndu eigendur félagsins hlaupa undir bagga með því ef á reyndi, segir í niðurstöðum nefndarinnar. Sparisjóðirnir sem áttu hlut í Kistu áttu mikið undir að félagið myndi vaxa og dafna. Þeir voru einu eigendur þess og bréfin í Exista nær eina eign félagsins. Færi félagið í þrot yrði það mikill álitshnekkir fyrir eigendur félagsins og efasemdir kæmu upp um fjárhagslegan styrk þeirra, segir í niðurstöðum nefndarinnar
Raunin varð sú að sparisjóðirnir ábyrgðust lán eða tóku á sig skuldbindingar Kistu. Í því ljósi er söluhagnaðurinn sem eigendur Kistu höfðu af því að selja félaginu hluti í Exista hf. lítill sem enginn, enda báru þeir á endanum áhættu af félaginu upp að því marki sem þeir ábyrgðust skuldir þess. Að þessu leyti til var áhættan ekki eingöngu bundin við hlutafé sparisjóðanna í félaginu.
Frá því sparisjóðirnir fjárfestu í Kaupþingi hf. árið 1986 voru töluverð eignarhaldsleg og stjórnunarleg tengsl milli þeirra, þó að hluti sparisjóðanna ætti í litlu samstarfi við aðra um eignarhald í félaginu. Auk þess að stofna félögin Exista og Kistu til þess að hafa áhrif á eiginfjárútreikninga kunna sjónarmið um áhrif sölu á stórum eignarhlut á gengi bréfa að hafa komið til álita við stofnun þeirra, segir m.a. í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur fram að þegar samkeppni á fasteignalánamarkaði á Íslandi breyttist með framboði viðskiptabankanna haustið 2004 var almennt talið innan sparisjóðakerfisins að mikilvægt væri að bregðast fljótt við. Mikil eftirspurn var eftir fasteignaveðlánum og öðrum lánum á þessum árum, en frá lokum árs 2003 til loka árs 2005 nærri tvöfölduðust útlán sparisjóðanna. Samningar sparisjóðanna við Íbúðalánasjóð áttu stóran þátt í að fjármagna þessa útlánaaukningu.
Lánsfé sparisjóða var margoft sótt á markað áður en búið var að ákveða til hvaða verkefna ætti að lána. Talið var víst að hægt yrði að lána féð út. Aðrar stærri fjármálastofnanir hérlendis sem voru í sömu stöðu voru þó vel fjármagnaðar og ríkti mikil samkeppni um arðbær verkefni.
Erlend lán reyndust stærri sparisjóðunum þungur baggi í kjölfar falls bankanna. Með þverrandi trausti á íslenskum fjármálamarkaði vildu erlendir bankar að íslenskar fjármálastofnanir gerðu upp útistandandi lánasamninga. Eftir fall bankanna 2008 var sparisjóðunum nær ókleift að útvega gjaldeyri til að endurgreiða lán eða skapa nógu mikið traust á bankarekstri á Íslandi til að hægt væri að semja við erlenda lánardrottna.