Kristján Gunnarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðsins í Keflavík sagði í skýrslu fyrir rannsóknarnefnd um sparisjóði, að hann hefði kvittað undir rangan starfslokasamning í kjölfar þess að Geirmundur Kristinsson sagði af sér sem sparisjóðsstjóri í apríl árið 2009.
Starfslokasamningurinn varð tilefni til mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum. Samningurinn var til í tveimur mismunandi útgáfum sem báðar voru undirritaðar af stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra og dagsettar 2. júní 2009. Í báðum gerðum samningsins stóð til að sparisjóðsstjórinn léti af störfum 1. júní en yrði nýjum sparisjóðsstjóra til aðstoðar til 31. desember 2009 og sæti einnig fram að því í þeim stjórnum sem sparisjóðurinn hafði falið honum að sitja í. Ráðningarsamningur hans skyldi gilda til 31. desember en 1. janúar 2010 skyldu honum greidd sex mánaðarlaun í eingreiðslu. Það sem var frábrugðið milli útgáfa samningsins var að í öðrum var kveðið á um endurútreikning láns til einstaklings sem tengdist sparisjóðsstjóranum og lánið flutt í einkahlutafélag, auk þess sem honum voru heimiluð afnot af orlofsíbúð sparisjóðsins í tilefni af fjölskylduhátíð.
Í skýrslunni er haft eftir Kristjáni Gunnarssyni, að tvær útgáfur samningsins hefðu verið til umræðu vegna þess að sparisjóðsstjóri hefði viljað fá ákveðin kjör, það hefði hins vegar ekki verið samþykkt en formaður stjórnar hefði fyrir mistök undirritað rangan samning. Hann sagði aldrei hafa reynt á innihald þess samnings því innihaldið úr réttum samningi hefði verið lesið upp á fundi stjórnar þegar hann var undirritaður. Réttur samningur hefði komið til framkvæmda.
Rannsóknarnefndin segir, að þessu beri ekki saman við það sem fyrrverandi aðalbókari sparisjóðsins tjáði rnefndinni í skýrslu sinni. Stjórnin hefði beðið hann að yfirfara starfslokasamning við sparisjóðsstjóra og hefðu nokkur atriði komið upp við þá skoðun sem leiddu til þess að samningurinn var dreginn til baka. Í honum hafi verið atriði sem ekki vörðuðu starfslok sparisjóðsstjóra og var samkomulagið því leiðrétt og ákveðin atriði látin ganga til baka. Aðalbókari yfirfór notkun sparisjóðsstjóra á greiðslukortum og tékkareikningum sparisjóðsins við sömu skoðun og var samið um það að sparisjóðsstjórinn endurgreiddi 2 milljónir króna vegna notkunar greiðslukortsins en þær voru dregnar af starfslokagreiðslu til hans.