Sagðist hafa kvittað undir rangan starfslokasamning

Formaður rannsóknarnefndarinnar fer yfir helstu niðurstöðu.
Formaður rannsóknarnefndarinnar fer yfir helstu niðurstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður Spari­sjóðsins í Kefla­vík sagði í skýrslu fyr­ir rann­sókn­ar­nefnd um spari­sjóði, að hann hefði kvittað und­ir rang­an starfs­loka­samn­ing í kjöl­far þess að Geir­mund­ur Krist­ins­son sagði af sér sem spari­sjóðsstjóri í apríl árið 2009.

Starfs­loka­samn­ing­ur­inn varð til­efni til mik­ill­ar um­fjöll­un­ar í fjöl­miðlum. Samn­ing­ur­inn var til í tveim­ur mis­mun­andi út­gáf­um sem báðar voru und­ir­ritaðar af stjórn­ar­for­manni og spari­sjóðsstjóra og dag­sett­ar 2. júní 2009. Í báðum gerðum samn­ings­ins stóð til að spari­sjóðsstjór­inn léti af störf­um 1. júní en yrði nýj­um spari­sjóðsstjóra til aðstoðar til 31. des­em­ber 2009 og sæti einnig fram að því í þeim stjórn­um sem spari­sjóður­inn hafði falið hon­um að sitja í. Ráðning­ar­samn­ing­ur hans skyldi gilda til 31. des­em­ber en 1. janú­ar 2010 skyldu hon­um greidd sex mánaðarlaun í ein­greiðslu. Það sem var frá­brugðið milli út­gáfa samn­ings­ins var að í öðrum var kveðið á um end­urút­reikn­ing láns til ein­stak­lings sem tengd­ist spari­sjóðsstjór­an­um og lánið flutt í einka­hluta­fé­lag, auk þess sem hon­um voru heim­iluð af­not af or­lofs­í­búð spari­sjóðsins í til­efni af fjöl­skyldu­hátíð.

Í skýrsl­unni er haft eft­ir Kristjáni Gunn­ars­syni, að tvær út­gáf­ur samn­ings­ins hefðu verið til umræðu vegna þess að spari­sjóðsstjóri hefði viljað fá ákveðin kjör, það hefði hins veg­ar ekki verið samþykkt en formaður stjórn­ar hefði fyr­ir mis­tök und­ir­ritað rang­an samn­ing. Hann sagði aldrei hafa reynt á inni­hald þess samn­ings því inni­haldið úr rétt­um samn­ingi hefði verið lesið upp á fundi stjórn­ar þegar hann var und­ir­ritaður. Rétt­ur samn­ing­ur hefði komið til fram­kvæmda.

Rann­sókn­ar­nefnd­in seg­ir, að þessu beri ekki sam­an við það sem fyrr­ver­andi aðal­bók­ari spari­sjóðsins tjáði rnefnd­inni í skýrslu sinni. Stjórn­in hefði beðið hann að yf­ir­fara starfs­loka­samn­ing við spari­sjóðsstjóra og hefðu nokk­ur atriði komið upp við þá skoðun sem leiddu til þess að samn­ing­ur­inn var dreg­inn til baka. Í hon­um hafi verið atriði sem ekki vörðuðu starfs­lok spari­sjóðsstjóra og var sam­komu­lagið því leiðrétt og ákveðin atriði lát­in ganga til baka. Aðal­bók­ari yf­ir­fór notk­un spari­sjóðsstjóra á greiðslu­kort­um og tékka­reikn­ing­um spari­sjóðsins við sömu skoðun og var samið um það að spari­sjóðsstjór­inn end­ur­greiddi 2 millj­ón­ir króna vegna notk­un­ar greiðslu­korts­ins en þær voru dregn­ar af starfs­loka­greiðslu til hans.

Um­fjöll­un um Spari­sjóðinn í Kefla­vík

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert