Reif 10.000-kalla í sundur á Alþingi

Skjáskot af Althingi.is

„Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um fundarstjórn forseta. Vísaði hann þar til rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna sem rædd er á Alþingi í dag. Sagði hann slíkar skýrslur mikilvægar til þess að varpa ljósi á afglöp yfirvalda.

Því næst beindi hann sjónum að kostnaðinum vegna rannsóknarskýrslunnar sem var um 600 milljónir króna. Gagnrýndi hann hversu skamman tíma þingmenn fengu til þess að kynna sér efni hennar áður en hún væri tekin til umræðu á Alþingi en skýrslan var gerð opinber í gær. Til stæði að ræða skýrsluna í fimm klukkutíma í dag sem þýddi miðað við kostnaðinn af henni að hver sekúnda kostaði 30 þúsund krónur.

Því næst tók hann upp þrjá tíuþúsundkalla og sagðist ætla að reyna að rífa þá einn í einu á einni sekúndu. Á meðan sló Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í bjölluna ítrekað þar sem ræðutíma þingmannsins var lokið. „Sjáum hvernig mér tekst að rífa 30 þúsund krónur á einni sekúndu. Einn seðil hver eftir annan. Eigum við að prófa?“ Það tókst hins vegar ekki.

„En þegar við ræðum skýrsluna í dag í alla þessa fimm tíma skuluð þið horfa til þess að verið er að rífa þrjá á sekúndu, sem endurspeglar kostnaðinn við þessa skýrslu og við eigum að geta tekið upplýsta ákvörðun og haft eftirlit með framkvæmdarvaldinu með þessu móti,“ sagði hann ennfremur.

Öll tækifæri til þess að bregðast við

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tók til máls við upphaf umræðu um rannsóknarskýrsluna og gerði grein fyrir henni sem staðgengill Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og sagði að einungis væri um að ræða umræðu um málið í dag. Alþingi hefði öll tækifæri til þess að bregðast við skýrslunni síðar með lagasetningu, þingsályktunum og fleiru. Hann væri því ekki sammála því að verið væri að fara illa með fjármuni almennings.

„Ég treysti því að þeir peningaseðlar sem hér voru rifnir hafi verið í einkaeign þingmannsins,“ sagði Illugi ennfremur. Honum væri vitanlega frjálst að fara með eigin fjármuni eins og honum þóknaðist.

Fleiri þingmenn hafa tekið undir gagnrýni á að þingmenn fengju skamman tíma til þess að kynna sér rannsóknarskýrsluna. Þar á meðal Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem sagðist telja að líða ættu þrjár nætur frá birtingu slíkra skýrslna þar til þær væru ræddar á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert