Ekki er alls staðar sumarlegt um að litast þótt formlega hafi sumarið byrjað í dag, samkvæmt dagatalinu. Sumstaðar á Vestfjörðum er raunar svo mikill snjór að líklegt má telja að liðið varði langt fram á sumar áður en hann bráðnar allur. Mokstur fjallvega er þó vel á veg kominn.
Mokstur á þremur erfiðum fjallvegum er kominn vel á veg og voru þeir orðnir færir fjórhjóladrifsbílum í gærkvöldi. Þar á meðal eru vegirnnir yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði, þar sem mokstri er að mestu lokið.
„Þetta hefur gengið hægt. Við vorum búnir að vinna mikið fyrir páska og var orðið skælingsfært á jeppum en suðvestanveðrið um páskahelgina fyllti snjógöngin að mestu aftur,“ sagði Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Nú er orðið fært milli suður- og norðurhluta Vestfjarða fyrir bíla með drifi á öllum hjólum, en ummerki um snjóþungan vetur eru þó hvergi nærri horfin. Á Hrafnseyrarheiði er 12 metra snjóstál við veginn og 9 metra háir ruðningar á Dynjandisheiði.
Sjá einnig: 15 metra snjóstál á Hrafnseyrarheiði
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar starfsmenn Vegagerðarinnar voru við mokstur í Arnarfirðinum. Vegurinn yfir Dynjandisheiði fer tvisvar upp í 500 metra hæð og einu sinni að auki í 468 metra hæð. Í heild er heiðin talin fremur snjólétt miðað við vestfirskar heiðar, en sumstaðar hlaðast þó upp stórar fannir líkt og sjá má á myndunum.