15 metra snjóstál á Hrafnseyrarheiði

Frá Hrafneyrarheiði í gær
Frá Hrafneyrarheiði í gær Ljósmynd/Bernharður Guðmundsson

Mikill snjór hefur verið á Vestfjörðum undanfarna daga. Bernharður Guðmundsson náði þessari mynd á Hrafnseyrarheiði í gær þar sem margra metra háir snjóskaflar teygðu sig drungalega yfir veginn báðum megin. 

Guðmundur R. Björgvinsson, yfirvaktstjóri Vegagerðarinnar, segir skaflana hafa verið um 15 metra háa. „Við byrjum á því að moka þetta með jarðýtu og svo með snjóblásara. Það var tveggja daga vinna að fara niður Skipadalinn.“ Guðmundur segir snjómesta kaflann hafa verið um 3-400 metra langan. „Það er oft mikill snjór í Skipadal eftir norðanátt eða aðrar norðlægar áttir. Þá sest snjórinn þarna í skjólið.“

Er þetta ekki mesta snjóhæð sem Guðmundur hefur heyrt af á svæðinu. „Ég hef heyrt af staðfestum mælingum sem segja að þarna hafi verið 22ja metra snjóhæð. Þá er skaflinn kominn fram af fjallsbrúninni.“

Hrafnseyrarheiði er í um 580 metra hæð yfir sjávarmáli og því er snjórinn ekki á undanhaldi af svæðinu á næstunni segir Guðmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert