Þegar hefur hægst á pöntunum

Þórir Garðarsson
Þórir Garðarsson Morgunblaðið/Jakob Fannar

„Það er ljóst að ef af þessu verður mun það hafa gríðarleg áhrif,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Iceland Excursions vegna fyrirhugaðs verkfalls félags flugvallarstarfsmanna ríkisins næsta miðvikudag. 

Þórir segir áhrifa þegar verið farið að gæta og að hægst hafi á pöntunum. „Það sem sker Ísland úr frá öðrum löndum er auðvitað hvað það er einangrað. Það er enginn möguleiki á því að keyra bara heim til sín ef flug fellur niður. Þetta hefur líka áhrif á ferðaskrifstofurnar því það gæti lent á þeim að greiða auka kostnað sem fellur til vegna verkfallsins. Það gæti því orðið fjárhagslegt tjón fyrir þær,“ segir Þórir. 

Mönnum verði haldið við samningaborðið

Þórir segir fyrirtækin í ferðaþjónustunni lítið geta gert. „Við getum bara biðlað til þessara aðila um að semja. Einnig biðlum við til ríkissáttasemjara, að hann beiti áhrifum sínum til þess að halda mönnum við samningaborðið. Það hefur vakið furðu margra hversu illa það hefur gengið,“ segir Þórir og bætir við: „Það vill enginn vera fastur með ferðamannahóp á Íslandi. Svona verkfall bitnar meira á ferðaþjónustufyrirtækjum og útflutningsgreinum eins og sjávarútvegi heldur en fyrirtækinu sem greiðir starfsmönnunum launin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert