Merki um tvískinnung

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir að í fjárlögum fyrir þetta ár hafi álögur verið hækkaðar á námsmenn um 180 milljónir, komugjöld á heilsugæslu hækkuð um 90 milljónir og skorið hafi verið niður í þróunaraðstoð sem nemur 400 milljónum, svo eitthvað sé nefnt, til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög.

Nú þegar áætlað sé að lækka veiðigjöld um tvo milljarða á ársgrundvelli sjái ríkisstjórnin hins vegar ekki ástæðu til að setjast yfir málið og kanna með hvaða hætti bæta eigi upp tekjumissirinn.

Í umræðum á Alþingi í dag rifjaði Katrín upp orð Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, í fréttum Ríkisútvarpsins þess efnis að ekki þyrfti að grípa til sérstakra aðgerða til að bæta upp fyrirsjáanlegt tekjutap ríkissjóðs vegna lægri veiðigjalda til að ná markmiðum um hallalaus fjárlög. 

„Þá er nú rétt að hafa það í huga að útgjöld ríkissjóðs á þessu ári eru áætluð um 600 milljarðar og ríkissjóður hefur fjölda tekjustofna sem færast til frá áætlunum þannig að ég held að út af þessu sé ekki ástæða til að menn setjist sérstaklega yfir það hvort þurfi að auka aðra skattheimtu eða draga úr starfsemi,“ sagði Illugi meðal annars.

Verður tekjutapið bætt upp?

Hún spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort hann gæti tekið undir orð Illuga eða hvort við ættum von á einhverjum aðgerðum, svo sem frekari skattheimtu eða niðurskurði, til að fjármagna „þessa auknu lækkun veiðigjalda,“ eins og Katrín orðaði það.

„Vandinn við vinstriflokkana þegar kemur að umræðu um veiðigjöld er að þeir líta á afkomu útgerðarinnar sem einhvern pott sem hægt er að ganga í og skammta sér af. Veiðigjöldin eru að lækka vegna þess að afkoman í greininni er að versna,“ sagði Bjarni í svari sínu.

„ Eða ætla menn sér ekkert að taka tillit til þess? Á þetta bara að vera þannig að menn skammta sér einhverja hlutdeild af hverju úthlutuðu þorskígildistonni, alveg óháð rekstri útgerðarinnar, og segja: Þetta eigum við af því að við þurfum að nota það í hin ýmsu samfélagslegu verkefni?“ spurði Bjarni.

„Það er leið þrjátíu ár aftur í tímann, aftur til þess að taka fjárfestingu frá útgerðinni, og við endum aftur með ríkisstyrktan búskap í sjávarútvegi á Íslandi, eins og hér var lengi vel áður,“ sagði Bjarni.

Sameiginlegir hagsmunir

„Frá þessu þarf að hverfa.

Þess vegna verða menn að skilja í þessari almennu umræðu um veiðigjöld á þinginu að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarbúsins alls og útgerðarinnar að það gangi vel.“

Veiðigjöldin væru fyrst og fremst að lækka vegna verri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og lækkandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum.

„Ber að taka tillit til þess í langtímaáæltun í ríkisfjármálum? Já, að sjálfsögðu er það slæmt að ríkið sé að verða af miklum tekjum meðal annars vegna verri afkomu í sjvárútvegi. En eru þetta þannig fjárhæðir að þær setji ríkisfjármálin í heild sinni í algjört uppnám? Nei, þetta setur ríkisfjármálin í heild sinni ekki í algjört uppnám,“ sagði Bjarni.

Hins vegar yrði það viðvarandi verkefni alls staðar, sama hvort það varðaði skráningargjöld í háskólann eða komugjöld á heilsugæslu, að fjármagnið yrði nýtt sem allra best og gjöldum og álögum dreift með sanngjörnum hætti.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert